„Alveg eins. Stólarnir eru engir frauðplastkassar en við vorum hörkugóðir. Við vorum kannski svolítið stirðir í byrjun en þegar við fundum taktir þá vorum við bara mjög góðir,“ sagði Jóhann Þór aðspurður hvort hann hefði átt von á svona stórum sigri í kvöld.
„Þegar við erum góðir varnarlega og náum stoppum þá náum við hraðaupphlaupum í bakið á þeim. Við gerðum það mjög vel. Annar leikhlutinn og fyrstu fimm í seinni þá vorum við geggjaðir, rosalega góðir. Það glitti mjög vel í það sem við höfum verið að sýna eftir áramótin.“

„Þetta var flott frammistaða á báðum endum og ég er bara stoltur af liðinu.“
Grindavík mætir Tindastóli í Síkinu á Sauðárkróki á mánudag en umgjörðin þar síðustu tímabilin hefur verið frábær í úrslitakeppninni.
„Ég hlakka bara til að fara norður. Ég er búinn að sitja í sófanum undanfarin tvö ár og fylgjast með þessu og mig langar að upplifa þetta. Ég hlakka bara til og vona að strákarnir séu sama sinnis.“
Í dag birtist frétt á Vísi þar sem sagt var frá að DeAndre Kane, lykilmaður Grindavíkur, ætti yfir höfði sér tveggja leikja bann vegna atviks í leik Grindavíkur og Stjörnunnar í deildakeppninni. Málið er allt hið furðulegasta og meðal annars sendi KKÍ Grindavík tilkynningu um kæruna á rangt netfang og málið tafist vegna þess.
„Ég vil ekki vera að tjá mig um þetta, það er ekki búið að dæma í þessu. Ég get sagt margt. Það er mikið og margt að í þessu máli. Það kemur bara yfirlýsing frá körfuknattleiksdeildinni.“

„Ég er bara með geggjaða sjálfboðaliða sem sjá um þessi mál. Mitt starf er að stýra þessu liði og reyna að vinna körfuboltaleiki. Ég ætla bara að einbeita mér að því. Auðvitað hefur þetta truflað undirbúning helling en við sjáum bara hvað verður.“