Orri hefur lítið spilað með FCK eftir áramót og Rúnar Alex ekkert, eftir komuna frá Arsenal í janúar.
Þeir urðu hins vegar vitni að mikilli dramatík á Parken í dag í uppgjöri erkifjendanna sem berjast um danska meistaratitilinn, ásamt Midtjylland.
Bröndby vann leikinn í dag 2-1 með sigurmarki Sean Klaiber í uppbótartíma.
Leikurinn dróst á langinn vegna óláta stuðningsmanna liðanna sem kveiktu á miklum fjölda blysa í upphafi leiks. En það var FCK sem komst yfir með marki Peter Ankersen rétt fyrir háflleik. Mathias Kvistgarden jafnaði metin á 69. mínútu fyrir Bröndby.
Bröndby komst með sigrinum í efsta sæti deildarinnar, nú þegar meistarakeppnin er hafin þar sem aðeins sex efstu lið deildarinnar spila innbyrðis. Bröndby er með 50 stig en Midtjylland er næst með 48 og FCK í 3. sæti með 45 stig. Midtjylland getur komist aftur á toppinn með sigri gegn Nordsjælland í leik sem nú er í gangi.
Júlíus á miðjunni gegn meisturunum
Í Noregi hóf Júlíus Magnússon nýja leiktíð með Fredrikstad sem nú spilar sem nýliði í úrvalsdeildinni, eftir að hafa komist upp síðasta haust. Hann lék allan leikinn á miðjunni á heimavelli, í 2-0 tapi gegn sterku liði Bodö/Glimt sem er ríkjandi meistari eftir sinn þriðja titil á fjórum árum.