Seld voru upp þau 160 sæti sem í boði voru í ferðina á úrslitaleik Íslands og Úkraínu á þriðjudagskvöldið, líkt og greint var frá í morgun. Það seldist hratt upp þar sem ferðin var auglýst á föstudagseftirmiðdegi.
Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Icelandair, staðfestir við Vísi að flugfélagið hafi ákveðið að svara eftirspurninni með því að fljúga með Boeing 757-300 vél sem tekur 225 manns í sæti í stað 160. Því er búið að bæta við 65 sætum en einhver biðlisti hafði myndast og því óljóst hversu mörg sæti eru eftir.
Áhugasamir geta sömuleiðis ferðast á eigin vegum til Wroclaw, og keypt sér miða á leikinn í gegnum Tix.is en miðaverð er aðeins 3.000 krónur. Sú miðasala lokar á miðnætti samkvæmt upplýsingum frá KSÍ.
Ljóst er að einhverjir fara þá leið og á vef KSÍ segir að von sé á hundruðum Íslendinga á leikinn sem skera mun úr um það hvort Ísland komist á EM í Þýskalandi í sumar.
Íslenski landsliðshópurinn er samankominn til Wroclaw en flaug frá Búdapest í dag. Liðið æfir þar á morgun og leikurinn fer fram á þriðjudagskvöld klukkan 19:45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Leikur Úkraínu og Íslands verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport þriðjudaginn 26. mars. Leikurinn hefst klukkan 19.45 en upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 19.10.