Fyrsti leikur Stólanna án Pavels var á heimavelli gegn Þór og tapaðist. Svo er fram undan undanúrslitaleikur í bikarnum gegn Álftanesi.
Síðustu dagar hafa verið erfiðir hjá leikmönnum og öllum sem koma að liðinu.
„Teitur Örlygsson og Pavel eru tveir stærstu karakterarnir í íslenskum körfubolta frá upphafi. Pavel sækir fyrsta Íslandsmeistaratitilinn á Krókinn og er risakarakter,“ segir Stefán Árni Pálsson íþróttafréttamaður í Besta sætinu, hlaðvarpi íþróttadeildar Sýnar.
„Þetta er mjög erfitt og erfitt að fylla skarð leiðtogans Pavels. Ég sé fyrir mér að strákur eins og Pétur Rúnar þurfi að stíga upp í leiðtogahlutverkið núna. Þetta verður erfitt.“
Stólunum hefur ekki gengið sem skildi í vetur og þeir eru í baráttu við að koma sér inn í úrslitakeppnina. Það er staða sem fáir sáu fyrir.
„Fyrir þá að snúa þessu við núna verður mjög erfitt og ég sé það ekki gerast ef ég á að vera algerlega heiðarlegur,“ bætir Stefán Árni við.
Hlusta má á þáttinn hér í fréttinni en þátturinn er einnig aðgengilegur á öllum hlaðvarpsveitum. Umræðan um þetta mál hefst í kringum 24 mínútur af þættinum.