Enski boltinn

Stjörnuleikmaður Arsenal ó­frísk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Amanda Ilestedt hefur verið í veikindaleyfi en nú vitum við ástæðuna.
Amanda Ilestedt hefur verið í veikindaleyfi en nú vitum við ástæðuna. Getty/Alex Burstow

Sænska landsliðskonan Amanda Ilestedt spilar ekki fótbolta á næstunni því hún á von á barni.

Ilestedt spilar með enska úrvalsdeildarliðinu Arsenal sem hefur verið óheppið með meiðsli síðustu misser. Margar af stærstu stjörnum enska liðsins hafa slitið krossband en nú er ástæðan mun gleðilegri en slík leiðindarmeiðsli.

„Það hefur verið erfitt að segja ekki sannleikann,“ sagði Amanda Ilestedt í viðtali á miðlum Arsenal.

„Við erum ánægð að flytja ykkur þær gleðifréttir að Ilestedt á von á sínu fyrsta barni,“ sagði í frétt sinni á heimasíðu félagsins. Félagið óskaði enn fremur Ömundu og kærasta hennar Rainer Müller til hamingju.

Ilestedt mun halda áfram að æfa sjálf og verður í stöðugu sambandi við læknalið Arsenal.

Ilestedt hefur verið í veikindafríi að undanförnu og því ekki að spila með Arsenal liðinu í síðustu leikjum.

Hin 31 árs gamla Ilestadt er lykilmaður hjá enska liðinu sem og hjá sænska landsliðinu. Hún skoraði fjögur mörk á síðasta heimsmeistaramóti og það þrátt fyrir að spila sem miðvörður.

Eftir heimsmeistaramótið færði hún sig yfir frá Paris Saint-Germain til Arsenal. Hún nær því ekki að klára sitt fyrsta tímabil með liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×