Jafn­tefli niður­staðan í stór­skemmti­legum leik á Anfi­eld

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það var hart barist á Anfield.
Það var hart barist á Anfield. Michael Regan/Getty Images

Liverpool og Manchester City gerðu 1-1 jafntefli í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu. 

Ekki nóg með það að leikurinn gæti haft gríðarleg áhrif á hvaða lið myndi standa uppi sem Englandsmeistari í lok tímabils þá var þetta einnig síðasta viðureign þeirra Jürgen Klopp og Pep Guardiola í deildinni. Sá þýski lætur af störfum að tímabilinu loknu.

Þrátt fyrir að Trent Alexander-Arnold, Andrew Robertson, Ibrahim Konaté og Mohamed Salah væru ekki í byrjunarliði Liverpool þá byrjuðu heimamenn leik dagsins af gríðarlegum krafti. Robertson og Salah komu þá báðir við sögu.

Það var rafmagnað andrúmsloft á Anfield í dag enda ljóst að leikur dagsins gæti skipt sköpum um hvaða lið stendur uppi sem Englandsmeistari. Þegar rétt tæpar tuttugu mínútur voru liðnar komu heimamenn boltanum í netið. Það gerði Luis Díaz eftir sendingu frá Darwin Núñez. Því miður fyrir Liverpool var Núñez fyrir innan vörn gestanna þegar boltanum var spyrnt og markið því ekki gilt.

Það nýttu Englandsmeistararnir sér en aðeins fjórum mínútum síðar kom John Stones þeim yfir eftir vel útfærða hornspyrnu. Kevin De Bruyne sendi boltann á nærstöngina þar sem Stones var einn á auðum sjó því Nathan Aké hafði einfaldlega nýtt líkamlega yfirburði sína gegn Alexis Mac Allister og komið honum af nærsvæðinu.

Leikurinn var áfram opinn og leikinn á gríðarlegum hraða. Hvorugu liðinu tókst hins vegar að koma boltanum í mark andstæðinga sinna það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Það átti eftir að breytast strax í upphafi síðari hálfleiks.

Hinn hollenski Aké átti þá skelfilega sendingu til baka á markvörð sinn Ederson. Núñez komst í boltann og óð framhjá Ederson sem braut klaufalega á framherjanum innan vítateigs. Niðurstaða gult spjald á markvörðinn og vítaspyrna dæmd. Ederson meiddist við höggið og þurfti að yfirgefa völlinn skömmu síðar.

Þar áður var hann næstum búinn að verja vítaspyrnu Mac Allister en spyrnan var föst og rétt nægilega há til að syngja í netinu. Staðan orðin 1-1 og allur síðari hálfleikurinn eftir. 

Eftir þetta tóku heimamenn öll völd á vellinum og það sagði sitt þegar Pep Guardiola gerði tvöfalda skiptingu á 69. mínútu í von um að stöðva áhlaup heimamanna. 

Það gekk að því leytinu til að Man City fór að sækja meira og skaut Phil Foden í slánna áður en Jeremy Doky skaut í stöng. Harvey Elliott skilaði knettinum svo í netið í uppbótartíma en flaggið hafði farið á loft töluvert áður og því ekki um mark að ræða. 

Staðan var því enn 1-1 þegar Michael Oliver, dómari leiksins, flautaði til leiksloka. Ljóst er að heimamenn eru súrari með niðurstöðu dagsins þar sem þeir áttu 19 skot gegn 10 hjá Man City. Þá var Liverpool með xG (vænt mörk) upp á 2.8 gegn 1.5. 

Jafnteflið þýðir að Arsenal er á toppnum með 64 stig þegar 10 umferðir eru eftir af deildinni. Liverpool er með jafn mörg stig en lakari markatölu á meðan Man City er með stigi minna í 3. sætinu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira