Enski boltinn

Klopp um Nunez: Gæðin leka út um eyrun á honum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darwin Nunez fagnar öðru marka sinna í gær með því að benda á eyrað sitt en stuðningsmann mótherjanna eru duglegir að láta hann heyra það.
Darwin Nunez fagnar öðru marka sinna í gær með því að benda á eyrað sitt en stuðningsmann mótherjanna eru duglegir að láta hann heyra það. Getty/Alexander Hassenstein

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hrósaði úrúgvæska framherjanum Darwin Nunez eftir 5-1 sigur Liverpool á útivelli á móti Sparta Prag í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar í gær.

Nunez skoraði tvö mörk í leiknum og þau voru bæði af betri gerðinni. Hann er nú kominn með sextán mörk í öllum keppnum á leiktíðinni. Liverpool er nánast búið að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum keppninnar.

Nunez hefur reyndar farið illa með mörg dauðafæri og fær mikið að heyra af því frá stuðningsmönnum andstæðinga Liverpool.

„Hann lætur það ekki trufla sig og heldur alltaf áfram,“ sagði Jürgen Klopp. Auk markanna sextán er Nunez búinn að leggja upp ellefu mörk.

„Fyrsta tímabilið hans var meira en allt í lagi en hann þurfti samt tíma til að aðlagast. Nú er hann búinn að því og orðinn fullgildur innan liðsins,“ sagði Klopp.

„Hann elskar að spila fyrir liðið og með þessum strákum. Ggæðin leka út um eyrun á honum,“ sagði Klopp en BBC segir frá.

„Er hann búinn að ná toppnum? Nei ekki hjá okkur. Getur hann bætt sig: Já. Er hann alltaf ógnandi? Já,“ sagði Klopp.

Guillem Balague, sérfræðingur BBC í spænska fótboltanum segir að Úrúgvæmaðurinn sé að komast í hæstu hæðir.

„Fólk hefur verið að einblína á skort á hæfileikum í því að klára færin en líta fram hjá því hversu sterkur hann er andlega. Það hefur komið honum þangað sem hann er i dag,“ sagði Guillem Balague.

„Hann er ekki lengur Benfica leikmaðurinn heldur er hann að verða að heimsklassa leikmanni,“ sagði Balague.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×