Í fyrsta þætti þáttaraðarinnar fylgir Baldur liði Stjörnunnar eftir á sínu undirbúningstímabili, en liðið er á leið í sitt fyrsta heila tímabil undir stjórn Jökuls Elísabetarsonar. Jökull tók við liðinu um mitt síðasta sumar eftir að Ágúst Gylfason var látinn fara.
Þetta er því fyrsta undirbúningstímabil Jökuls sem aðalþjálfari Stjörnunnar og eins og flestir vita skiptir gríðarlegu máli að mæta vel til leiks í fyrstu leiki tímabilsins. Undirbúningstímabilið getur því skipt sköpum fyrir lið deildarinnar.
„Ég hugsa fótbolta á tiltölulega einfaldan hátt. Þetta er leikur að svæðum og við stúderum bara svæðin og hvar svæðin liggja,“ segir Jökull í þætti kvöldsins, en brot úr þættinum má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Jökull tók við Stjönunni í maí á síðasta ári, en þá hafði liðið tapað fimm af fyrstu sex leikjum tímabilsins og aðeins unnið einn. Jökli tókst að snúa genginu við og liðið hafnaði að lokum í fjórða sæti deildarinnar og tapaði aðeins þremur leikjum undir hans stjórn áður en deildinni var skipt í efri og neðri hluta.
Í efri hlutanum vann Stjarnan fjóra af fimm leikjum og endaði að lokum í þriðja sæti með 46 stig, tuttugu stigum á eftir Íslandsmeisturum Víkings.
