Samtökin skora á ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að láta af frystingu fjármögnunar til UNRWA - að snúa þeirri ákvörðun við án tafar og styðja við störf UNRWA.
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra ákvað þann 30. janúar að frysta stuðning til UNRWA að fresta greiðslu kjarnaframlags til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA), í kjölfar ásakana um að tólf starfsmenn stofnunarinnar hafi átt aðild að hryðjuverkaárás Hamas 7. október síðastliðinn.
Amensty International viðurkennir alvarleika ásakana sem ísraelska ríkisstjórnin setti fram á hendur 12 af 30.000 starfsmönnum UNRWA um þátttöku þeirra í brotum á alþjóðalögum, þar á meðal stríðsglæpum, gegn ísraelskum borgurum þann 7. október.
„Engu að síður hafa samtökin rannsakað sex blaðsíðna skjal sem inniheldur þær ásakanir sem Ísrael hefur lagt fram um málið og komust samtökin að þeirri niðurstöðu að þar eru engin sönnunargögn sem benda til þess að UNRWA beri ábyrgð á þeim sökum sem bornar hafa verið á hendur umræddum starfsmönnum. Reynast umræddar sakir á rökum reistar tengjast þær ekki á starfssviði þeirra hjá UNRWA.“
UNRWA að vinna ómetanlegt starf
UNRWA tilkynnti um uppsögn hlutaðeigandi tíu starfsmanna en tveir úr hópi þeirra tólf sem sættu meintum sökum hafa verið drepnir. Undirstrikað er í áskoruninni að frystingin hafi hörmuleg áhrif á líf milljóna manna. Ásakanir á hendur fáeinum einstaklingum um verknað sem tengist ekki þeirra starfssviði réttlætir aldrei jafn róttæka ákvörðun og ríkisstjórn Íslands hefur tekið.
„Í þeirri mannúðarneyð sem nú er á Gaza er það hlutverk UNRWA að veita aðstoð, mat og skjól gríðarlega mikilvægt og lífsnauðsynlegt, sérstaklega í ljósi þess að enginn annar aðili í mannúðarstarfi er til staðar sem getur fyllt skarðið,“ segir í tilkynningunni.
Málið enn til skoðunar
Þá er bent á að rúmlega 1,7 milljónir íbúa á Gaza séu vegalausir og nærri milljón þeirra hefur leitað skjóls í yfirfullum skólum og athvörfum sem UNRWA rekur. „Íslandsdeild Amnesty International kallar eftir því að ríkisstjórn Íslands tryggi UNRWA fjárhagsstuðning án tafar í ljósi hættu á hópmorði Palestínubúa á Gaza og fordæmi opinberlega áform ísraelskra stjórnvalda um nauðungarflutninga palestínskra íbúa á Gaza og staðfesti rétt þeirra til að snúa aftur til síns heima, sbr 194. ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá desember 1948.“
Engin ákvörðun hefur verið tekin um það hvað verður með frystinguna en Írar tilkynntu nýlega að þeir væru hættir við frystingu. Enn hefur ekki komið til þess að Ísland borgi ekki en það stefnir hins vegar í það.
„Málið er enn til skoðunar. Samkvæmt rammasamningi við UNRWA skal kjarnaframlag Íslands greitt á fyrsta ársfjórðungi, eða fyrir lok mars,“ segir í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Vísis.