Fótbolti

Bannar Playstation tölvur í lands­liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luciano Spalletti er ekki mikill aðdáandi Playstation tölva.
Luciano Spalletti er ekki mikill aðdáandi Playstation tölva. Samsett/Getty

Ítalski landsliðsþjálfarinn Luciano Spalletti er búinn að ákveða það að tölvuleikir trufli leikmenn landsliðsins í verkefnum þess.

Spalletti hefur því ákveðið það að leikmenn megi ekki taka með sér PlayStation tölvur sínar í næsta landsliðsverkefni.

Ítalska landsliðið er á leiðinni á Evrópumótið í Þýskalandi í sumar þar sem liðið er í riðli með Spáni, Króatíu og Albaníu.

„Frá og með deginum í dag þá eiga leikmenn að skilja PlayStation tölvurnar sínar eftir heima því þeir mega ekki vera með þær þegar við hittumst,“ sagði Spalletti í viðtali við Gazzetta dello Sport.

Spalletti er þekktastur fyrir að vinna titilinn með Napoli síðasta vor. Hann hætti óvænt með liðið eftir tímabilið en Napoli hafði ekki unnið titilinn í 33 ár.

Hinn 64 ára gamli þjálfari tók við ítalska landsliðinu þegar Roberto Mancini hætti óvænt í september.

„Ég mun finna upp leik fyrir þá á kvöldin ef þeim leiðist. Ég læt þá líka fá heimavinnu ef að þeir ná ekki að klára sitt yfir daginn,“ sagði Spalletti.

„Þegar þú ert með landsliðinu þá er enginn tími fyrir fíflagang. Við þurfum einbeitingu. Ég þarf að búa til landslið sem sættir sig við ekkert annað en að vinna. Ég vil vinna Evrópumótið og síðan heimsmeistaramótið,“ sagði Spalletti.

Ítalska landsliðið hefur unnið þrjá af sex leikjum undir hans stjórn og tapað einum. Markatalan er 13-7 eða sex mörk í plús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×