Fótbolti

Feitur biti frá Sveindísi til Glódísar

Sindri Sverrisson skrifar
Lena Oberdorf sækir að Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur í landsleik á Laugardalsvelli síðasta haust. Mögulega spila þær saman með Bayern á næsta tímabili.
Lena Oberdorf sækir að Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur í landsleik á Laugardalsvelli síðasta haust. Mögulega spila þær saman með Bayern á næsta tímabili. Getty/Hulda Margrét

Þýska knattspyrnufélagið Bayern München staðfesti í dag að hin 22 ára gamla Lena Oberdorf kæmi til félagsins í sumar frá Wolfsburg. Hún skrifaði undir samning við Bayern sem gildir til 2028.

Kaupverðið er sagt nema 60-67 milljónum króna (400-450 þúsund evrum) og er það hæsta sem greitt hefur verið fyrir þýska knattspyrnukonu.

Oberdorf verður þar með væntanlega liðsfélagi Glódísar Perlu Viggósdóttur og Cecilíu Ránar Rúnarsdóttur, sem og mögulega Karólíu Leu Vilhjálmsdóttur sem í vetur er að láni hjá Leverkusen.

Hún hefur verið liðsfélagi Sveindísar Jane Jónsdóttur hjá Wolfsburg síðustu ár og verið í lykilhlutverki hjá liðinu sem komst meðal annars í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á síðasta ári, varð Þýskalandsmeistari 2022 og hefur unnið þýska bikarinn þrjú síðustu ár.

Oberdorf var valin besti ungi leikmaðurinn í Meistaradeild Evrópu á síðustu leiktíð, og hafði áður verið valin besti ungi leikmaðurinn á Evrópumóti landsliða 2022 þegar Þýskaland hafnaði í 2. sæti.

Þrátt fyrir frekar ungan aldur á hún að baki 44 A-landsleiki og hefur spilað 99 leiki í efstu deild Þýskalands.

Oberdorf er í þeirri sérkennilegu stöðu að eiga eftir að mæta sínum verðandi liðsfélögum í leik gegn Bayern 23. mars, en sá leikur gæti ráðið miklu í baráttunni um þýska meistaratitilinn. Bayern er stigi fyrir ofan Wolfsburg eftir þrettán umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×