Eins og fram hefur komið eru þrír fulltrúar frá utanríkisráðuneytinu staddir í Kaíró í Egyptalandi. Í tilkynningu ráðuneytisins í dag kemur fram að ferðin sé liður í undirbúningi aðgerða utanríkisráðuneytisins til aðstoðar við fólk á Gasa með dvalarleyfi á Íslandi. Fulltrúar ráðuneytisins eiga í nánu samstarfi við bæði norræn sendiráð og stjórnvöld á staðnum.
„Vonast er til að með aðgerðunum takist að greiða fyrir för dvalarleyfishafa, sem eru á lista sem íslensk stjórnvöld hafa sent til egypskra og ísraelskra stjórnvalda, yfir landamærin,“ segir enn fremur.
Þá segir að lokum að árangur aðgerða fulltrúanna sé háður samþykki erlendra stjórnvalda og ástandi við landamæri Egyptalands og Gasa.
„Sú staðreynd að íslensk stjórnvöld halda ekki úti sendiskrifstofu á svæðinu gerir verkefnið einnig umfangsmeira en ella,“ segir að lokum.
Auk fulltrúa ráðuneytisins eru fimm sjálfboðaliðar í Egyptalandi. Þeir eru þar í sama tilgangi og hafa óskað eftir því að hitta fulltrúa ráðuneytisins. Samkvæmt svörum ráðuneytisins til fréttastofu er beiðni þeirra enn til skoðunar.