Lið San Francisco 49ers var miklu meira sannfærandi á þessu NFL tímabili og það væri því langeðlilegast ef að þeim væri spáð sigri í Super Bowl leiknum í ár. Það er samt ekki svo.
ESPN fjallar vel um NFL-deildina og hefur stóran hóp fólks í vinnu við að greina leikina, taka viðtöl og fjalla um það sem fer fram.
ESPN ákvað að fá alla þessa aðila, 64 talsins, til að spá fyrir um lokatölur í Super Bowl leiknum á sunnudaginn en leikurinn er á milli 49ers og Kansas City Chiefs og fer fram í Las Vegas.
Kansas City Chiefs er ríkjandi meistari eftir sigur á Philadelphia Eagles í fyrra en Chiefs liðið hefur verið gagnrýnt mikið í allan vetur. Þegar verst gekk bjuggust mjög fáir við því að liðið færi alla leið í ár enda virtist sóknarleikurinn vera lengi vel í molum.
ESPN experts pick Super Bowl LVIII and make their MVP predictions https://t.co/f7z90fhnl1 #NFL #SchwartziesSports
— Schwartzies (@SchwartziesS) February 7, 2024
Patrick Mahomes og félagar unnu frábæra útisigra á sterkum liðum á leið sinni í úrslitaleikinn og nú trúir fólk aftur á meistarana.
Sérfræðingar ESPN hafa mikla trú á því að Chiefs liðið verji titilinn og verði fyrsta liðið til að gera það í tvo áratugi.
49 af 64 spámönnum telja að Kansas City Chiefs verði NFL meistari í ár eða 76,6 prósent. Aðeins 23,4 prósent spáð því að San Francisco 49ers vinni sinn fyrsta meistaratitil frá árinu 1995.
Flestir spáðu leiknum 27-24 eða átta talsins en sjö spáðu honum 27-21. Mest var spáð 64 skoruðum stigum í leiknum (34-30) en minnst 37 stigum (20-17). Sá sem spáð stærstum sigri spáði 20 stiga sigri (34-14) en annars voru 52 af 64 á því að leikurinn myndi vinnast á snertimarki eða minna.
San Francisco 49ers og Kansas City Chiefs mætast í leiknum um Ofurskálina í ár en Super Bowl hátíðin er að sjálfsögðu sýnd beint á Stöð 2 Sport 2. Útsendingin hefst klukkan 22.00 á sunnudaginn með upphitun fyrir leikinn en leikurinn sjálfur byrjar síðan upp úr klukkan 23.30.