Þuríður Erla sagði frá þessu á samfélagsmiðlum í gær. „Ég mun keppa á EM í Ólympískum Lyftingum þann 14. febrúar næstkomandi. Ég lyfti vanalega þyngra þegar ég er á þessu sviði en þegar ég er að æfa. Ég hlakka því til að keppa,“ skrifaði Þuríður Erla.
Þuríður Erla er ein okkar reyndasta CrossFit kona en hún hefur keppt á átta heimsleikum í CrossFit þar af sjö sinnum í einstaklingskeppninni. Bestum árangri náði hún árið 2019 þegar hún varð í níunda sæti.
Þuríður hefur líka mikla reynslu af stórmótum í Ólympískum Lyftingum þar sem hún hefur keppt bæði á heims- og Evrópumeistaramótum. Hún varð meðal annars í tíunda sæti á EM 2021 og í tíunda sæti á HM 2017.
Þuríður keppir í mínus 59 kílóa flokknum. Ísland er með sex keppendur á mótinu og eru það allt konur. Katra Björk Ketilsdóttir keppir einnig í 59 kíló flokknum. Þuríður er níu árum eldri en Katla.
Þuríður er skráð með 184 kíló samanlagt inn í keppnina en Katla Björk er skráð inn með 173 kíló. Keppendur keppa í samanlögðum árangri í snörun og í jafnhendingu.
Eygló Fanndal Sturludóttir var valin lyftingarkona ársins á síðasta ári og stendur fremst allra Íslendinga í baráttunni um Ólympíusæti í þessari grein. Hún keppir í mínus 71 kílóa flokki. Eygló er skráð inn með 230 kíló samanlagt en hún hefur verið bæta sig mikið undanfarna mánuði.
Guðný Björk Stefánsdóttir keppir í mínus 76 kílóa flokki, Friðný Fjóla Jónsdóttir keppir í mínus 87 kílóa flokki og Erla Ágústsdóttir keppir í plús 87 kílóa flokknum.
Eygló Fanndal, Guðný Björk og Erla eru yngstar í hópnum, allar fæddar árið 2001. Þuríður Erla er elst en hún er fædd árið 1991.