Tónlist

„Það er eins og ég hafi séð fyrir að hann myndi deyja“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Vala Sigríður Guðmundsdóttir Yates tónlistarkona ræddi við blaðamann um lífið og tónlistina.
Vala Sigríður Guðmundsdóttir Yates tónlistarkona ræddi við blaðamann um lífið og tónlistina. Vísir/Vilhelm

„Ég er búin að upplifa ýmis áföll á lífsleiðinni þannig að ég hef svolítið neyðst til að fara í sjálfsvinnu og sjálfsskoðun, byggja mig upp og svona. Svo samtvinnast það tónlistinni þar sem ég nota tónlistina í þessa sjálfsvinnu,“ segir tónlistarkonan Vala Sigríður Guðmundsdóttir Yates.

Blaðamaður ræddi við Völu Yates um tónlist hennar og lífið, bæði fallegar og erfiðar hliðar þess. Hún verður með útgáfutónleika á plötunni Towards my Dreams fimmtudaginn 15. febrúar og er óhrædd við að syngja um áföllin. 

Hlustaði á tónlist í móðurkviði

Vala segir að hún hafi alla tíð verið heilluð af tónlistinni og muni ekki eftir lífinu án hennar.

„Ég heyrði sögu af því að ég væri svo músíkölsk vegna þess að mamma mín spilaði á gítar þegar ég var í móðurkviði. Það hlýtur að hafa áhrif, sérstaklega að vera með gítar við magann, þá einhvern veginn upplifir barnið það svo sterkt og það hefur áhrif á það hvernig barnið upplifir tónlist.

Önnur saga er frá ömmu minni, hún sagði mér frá því seinna meir að þegar ég var það lítil að ég var varla farin að sitja þá kveikir hún á spiladós. Hún sagði: Það var svo merkilegt að ég sá að þú þekktir lagið svona ung. Eftir það var hún viss um að ég hefði einhverja tónlistargáfu.“

Vala byrjaði ung að árum að prófa sig áfram í tónlistarheiminum, fyrst við blokkflautunám og síðar í Gradualekór Langholtskirkju.

„Ég elskaði kórinn og það hafði mjög mótandi áhrif á mig. Þegar ég var tvítug fór ég í söngnám og byrjaði strax að læra á gítar.“

Vonin alltaf mikilvægust

Tónlistin spilar veigamikið hlutverk í hennar lífi og sömuleiðis sjálfsvinna en hún er dugleg að tengja það saman.

„Síðustu ár er ég búin að vinna mikið í mér. Ég er búin að upplifa ýmis áföll á lífsleiðinni þannig að ég hef svolítið neyðst til að fara í sjálfsvinnu og sjálfskoðun, byggja mig upp og svona. Það hefur verið svolítið partur af lífi mínu í gegnum fullorðinsárin. Svo samtvinnast það tónlistinni þar sem ég nota tónlistina fyrir þessa sjálfsvinnu.

Ég leyfi mér að setja mínar reynslusögur inn í mína tónlist. Ásetningurinn minn með þessari plötu var að skapa eitthvað fallegt og uppbyggilegt. Ég er viljandi að búa til texta sem mér finnst vera með slíkan boðskap en mér finnst líka mikilvægt að tala um þá erfiðleika og þær erfiðu tilfinningar sem maður upplifir.

Þannig að þó að þetta sé jákvætt þá er ég samt ekki bara að tala um einhverja gleði. Ég tala líka um sorglegu hliðarnar, opna á erfiðleika í mínu lífi og segi frá því hvernig ég hef unnið úr þeim. Óskin mín er að þetta gefi einhverja von.“

Vala Yates segir mikilvægt að vonin sé alltaf til staðar, bæði í lífi hennar og tónlist.Vísir/Vilhelm

„Vildi að ég gæti sungið þig aftur til lífsins“

Meðal laga á plötunni er lagið I wish I could sing you back to life. Lagið samdi Vala til pabba síns sem var þá á lífi en lagið fékk nýjan tilgang mánuðum síðar, eftir að faðir hennar féll frá.

„Það er rosa skrýtið hvernig lagið um pabba kom til. Það er eins og ég hafi séð fyrir að hann myndi deyja. Ég samdi textann á meðan hann var á lífi en textinn er: I wish I could sing you back to life.

Þegar ég samdi textann langaði mig að ná til pabba. Honum leið rosalega illa og mig langaði að sýna honum að ég sæi sársaukann hans og mig langaði að hjálpa honum. Því ég var kannski ekki alltaf til staðar fyrir hann, því ég gat það ekki. 

En mig langaði að sýna honum það þarna og ég hugsaði með mér að besta leiðin til að koma því áleiðis væri að semja lag um það og syngja það fyrir hann. Svo framdi hann sjálfsvíg og ég eiginlega bara gleymdi þessum texta.

Hálfu ári eftir að hann dó þá fann ég þennan texta og ég fékk bara algjöra gæsahúð þar sem mér leið eins og ég hefði séð þetta fyrir. Þá er texti lagsins einhvern veginn orðinn bókstaflegur.“

Vala Yates samdi lagið Sing you back to life stuttu áður en að faðir hennar féll frá. Þegar hún rakst á lagið nokkrum mánuðum síðar fékk lagið nýja meiningu fyrir henni. Vísir/Vilhelm

Að kveðja eitt líf og samtímis fara að taka á móti öðru

Það gefur augaleið að mikilvægur partur af sköpunarferlinu hjá Völu er að fara í gegnum erfiðar tilfinningar.

„Sem dæmi má nefna annan texta sem ég samdi þegar ég var ólétt, stuttu eftir að pabbi minn dó. Þá mætast rosalega ólíkar og flóknar tilfinningar, þar sem ég er að upplifa mikla gleði og tilhlökkun yfir því að verða móðir en á sama tíma er ég að syrgja pabba minn. 

Ég er að kveðja eitt líf og fara að taka á móti nýju lífi. Lagið einkennist af rosalegum öfgum þar sem fegurðin og sorgin mætast. 

Tónlistin er almennt mjög öflug leið til þess að koma áföllunum í fallegan farveg.“

Fyrir Völu er tónlistin öflug leið til þess að koma áföllum sem hún hefur orðið fyrir í fallegan farveg. Vísir/Vilhelm

Hún segist upplifa heilunina sem fylgir því nú sterkar en nokkru sinni fyrr.

„Sérstaklega núna þegar ég er búin að gefa út plötuna og er búin að deila minni sögu. Fólk er að senda mér skilaboð þar sem það segir mér að lögin mín hafi hjálpað þeim í gegnum sína erfiðleika.

Það að geta hjálpað er svo verðmætt, bæði með sögunni minni og tónlistinni minni. Það er svo mikil heilun og einhver galdur í því að finna að maður er ekki einn. Og það er allt í lagi að fara í gegnum erfiðleikana og þá hættir maður vonandi líka að dæma sig fyrir það að líða illa, eins og stundum getur gerst.

Mér finnst líka skipta svo miklu máli að deila því hvernig ég vinn úr þessu og hef vonina að vopni. Fólk hefur deilt því með mér að það hafi hlustað á lögin mín til að finna vonina.“

Í spilaranum hér að neðan má heyra lagið Nýtt líf með Völu: 

Klippa: Vala Yates - Nýtt líf

Leyfir sér að vera berskjölduð

Vala segir þó að það sé ekki endilega meðvitað hjá henni að ákveða að leita í tónlistina heldur sé það einfaldlega eitthvað sem alltaf gerist.

„Ég er eiginlega ekki meðvituð um það því þetta hefur bara alltaf verið mín leið. Ég hef líka lengi verið að vinna að þessari plötu og var svolítið að einblína á það að klára lögin án þess að staldra endilega við og vera meðvituð um það hvað ferlið er heilandi fyrir mig. 

Já, þessi upplifun gaf mér lag og svo eftir á finn ég hvað það hafði uppbyggileg áhrif að geta samið um hana,“ segir Vala og brosir.

Vala segist finna fyrir ákveðnum létti við að senda frá sér plötuna.

„Eftir alla vinnuna sem ég hef lagt í þetta og út frá öllu sem ég er búin að ganga í gegnum í mínu persónulega lífi þá finnst mér einhver ávöxtur vera að koma núna. Ég er að stíga fram með þetta og er tilbúin að sýna þetta.

Bæði með því að gefa út þessa plötu og sömuleiðis halda tónleika þar sem ég stíg á svið og flyt þetta fyrir framan fólk. Ég er svolítið feimin þó að ég geti falið það og það er partur af mér sem finnst óþægilegt að fara á svið þar sem allir eru að horfa á mig. 

En það er annar partur af mér núna sem fær mig til að kýla á það og bara stíga inn í það, leyfa mér að skína, vera berskjölduð og gefa af mér.“

Eins og að syngja upp úr dagbókinni sinni

Hún segir að í fyrstu hafi henni þótt það stressandi að flytja textana fyrir framan aðra en ekki lengur.

„Ég hélt sjö tónleika á Norðurlandi með lögum plötunnar áður en ég var búin að taka hana upp. Þá var þetta bara ég og gítarleikari og ég man bara hvað mér leið skringilega á fyrstu tónleikunum, vá hvað það var skrýtið. Það var í fyrsta skipti sem ég var að syngja lögin fyrir framan fólk og mér leið bara eins og ég væri að syngja upp úr dagbókinni minni.

Þetta var í fyrsta skipti þar sem ég var að syngja mín eigin lög. Ég var vanari því að syngja lög annarra og þá getur maður fjarlægt sig frá þeim. En þetta eru svo berskjaldandi sögur sem eru svo nálægt mér.“

Hún segir að það hafi þó verið fljótt að venjast. Sömuleiðis verði hún að semja um sínar lífsreynslur og það einkennir jú hennar listsköpun. Aðspurð hvaða tengingu hún hafi við Norðurland svarar Vala:

„Barnsfaðir minn er frá Hrísey og það er einmitt eitt lag á plötunni sem heitir Hrísey sem ég samdi þar þegar við vorum að kynnast. Ég hélt líka tónleika í Hrísey.“

Þau eru ekki saman í dag en eru þó góðir vinir. Lagið hennar I have to let you go fjallar um ástarsorg og var samið eftir að þau hættu saman. 

„Lagið fjallar um það þegar maður er nýhættur í sambandi, elskar viðkomandi ennþá, en veit einhvers staðar að maður þarf að sleppa þeim. Ég var búin að ákveða að platan yrði tíu lög. Þetta var smá fyndið og táknrænt því ég var að safna í plötuna og var komin með níu lög en átti eftir að semja það tíunda. Við hættum saman og út frá því kom lag og ég vissi bara að það ætti að vera á plötunni,“ segir Vala kímin.

„Það var eitt ástarlag komið og það einhvern veginn bara passaði að hafa kaflaskiptin með.“

Í spilaranum hér að neðan má heyra lagið I Have to Let You Go:

Klippa: Vala Yates - I Have To Let You Go

„Þetta er draumurinn minn“

Á tónleikunum 15. febrúar, sem haldnir verða á staðnum White Lotus á Mama Restaurant, verður Vala með hljómsveit með sér og hafa þau verið að æfa saman í nokkra mánuði. Sömuleiðis verður strengjatríó í þremur lögum.

„Ég veit líka núna nákvæmlega afhverju ég er að þessu. Ég veit að þetta getur hjálpað fólki og sjálfri mér og mig langar að gera þetta fyrir sjálfa mig. 

Þetta er draumurinn minn og ég leyfi mér að stíga inn í hann og njóta þess.“

Að lokum spyr blaðamaður hvort Vala lifi eftir einhverju góðu ráði.

„Ég var að tala við vinkonu mína í gær og þá vitnaði ég í slagorð sem ég lærði í 12 spora samtökum sem er Lifðu og leyfðu öðrum að lifa.“

Lifðu og leyfðu öðrum að lifa er mikilvæg mantra fyrir Völu. Vísir/Vilhelm

Mikilvægt að finna kjarkinn til að lifa eftir sínum kjarna

Aðspurð hvaða þýðingu ráðið hefur fyrir sig svarar hún:

„Lifðu, það er að finna kjarnann minn og síðan hlusta á hann. Hvað vil ég gera, hvað gefur mér næringu og lífsgleði, hvernig get ég gert það vel og hvernig get ég gefið af mér? Og finna síðan kjarkinn til að lifa eftir honum.

Síðan leyfðu öðrum að lifa, að vera ekki að skipta mér að því hvernig aðrir velja að lifa. Ef fólk kemur til mín og biður um ráð þá deili ég og get speglað reynslu en fólk hefur frjálsan vilja til að velja hvað það vill gera. 

Jafnvel þótt að ég hugsi að eitthvað séu mistök þá er það ekki mitt að bjarga þeim eða banna þeim. Nema kannski dóttur minni,“ segir Vala hlæjandi.

Vala var í 12 spora samtökunum í nokkur ár sem hún segir hafa mótað líf sitt.

„Ég var rosalega meðvirk og ég lærði þarna í þessum 12 spora samtökum að vinna mig úr því. Auðvitað er það aðeins enn til staðar en ég fékk alls konar tól og tæki til að leyfa því ekki að stjórna mér svona mikið, ég lærði að setja mörk, finna hver ég er og gera það sem ég vil,“ segir þessi tónlistarkona, sem fylgir sínu og lætur drauma sína rætast, að lokum. 

Hér má hlusta á Völu Yates á streymisveitunni Spotify og hér má nálgast nánari upplýsingar um tónleikana. 

Í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins s.1717, á netspjallið 1717.is og á Píeta símann s.552-2218. Þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi er bent á stuðning í Sorgarmiðstöð s. 551-4141, upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is og á Píeta símann s.552-2218.


Tengdar fréttir

„Hann virtist ekkert muna hvers konar skrímsli hann gat verið“

„Æskuminningarnar eru eiginlega tvískiptar. Annars vegar góðar minningar um pabba. En hins vegar erfiðleikarnir. Þegar pabbi var í brjálæðiskasti að öskra á mömmu og segja svo hræðilega ljóta hluti við hana að ég get eiginlega ekki endurtekið þá upphátt,“ segir Vala Sigríður Guðmundsdóttir Yates.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×