Báðir verið á óskalistanum lengi
Tvíeykið opnaði sýningarárið í Ásmundarsal með sýningunni Klettur í sýningarsal á efri hæð og Edda í Gryfjunni.
„Við erum ótrúlega stolt að hafa fengið þessa flottu listamenn til að opna sýningarárið okkar en þeir hafa báðir verið á óskalistanum hjá okkur í nokkurn tíma. Það er líka táknrænt að fá Hrein aftur í hús en hann hélt sína fyrstu sýningu með SÚM hópnum í Ásmundarsal árið 1964.
Í fyrsta sinn á Íslandi er nú til sýnis verkið hans Klettur sem hefur skírskotun í fyrri verk og veitir innsýn í hans langa feril,“ segir Ólöf Rut Stefánsdóttir, sýningarstjóri í Ásmundarsal.
Birtist í gegnum myndsímtal
Þrátt fyrir að Hreinn sé búsettur í Amsterdam og ekki ferðafær þá lét hann sig ekki vanta á opnun, en hann birtist gestum í gegnum myndsímtal.
„Það var ótrúlega falleg stund þegar Styrmir Örn, myndlistarmaður og samstarfsmaður hans, labbaði um salinn með símann í hönd þar sem Hreinn heilsaði upp á gesti í gegnum Facetime. Þá mátti sjá gleðitár á hvarmi gamalla og góðra vina.“
Klettur er innsetning þar sem sjávaröldum er varpað á stórskorið landslag samsett úr margskonar pappakössum þar sem gegnumgangandi þema verksins er hinn gullni spírall, oftast kenndur við Fibonacci.
„Þó verkið virðist látlaust við fyrstu sýn er það marglaga við nánari skoðun. Tíminn hefur ávallt verið Hreini hugleikinn og gaman að sjá hvernig hann túlkar hann með mismunandi útfærslu í verkinu.“

Gripinn glóðvolgur eftir Feneyjartvíæringinn
Verk Sigurðar Guðjónssonar, Edda, sem er til sýnis í Gryfjunni er einnar rásar myndband sem fyllir heilan vegg í þröngu rýminu og byggist á dáleiðandi hreyfingum segldúka.
„Hrynjandi, flæði og endurtekning framkalla skynræna upplifun í verkinu, þar sem leikið er með skala og órætt samhengi. Þannig að þegar maður stendur inni í Gryfjunni verða áhrifin eins og veggurinn sé á hreyfingu og manni finnst jafnvel eins maður geti gengið inn í hann,“
segir Ólöf og bætir við að það hafi verið mikill fengur að grípa Sigurð Guðjónsson svona glóðvolgan eftir Feneyjartvíæringinn 2022, þá sér í lagi þar sem verk sýninganna tveggja kallast svo á.

Sýningarnar standa til 3. mars en Ásmundarsalur er opinn alla daga til klukkan 17 og aðgangur er ókeypis. Hér má sjá fleiri myndir frá opnuninni:











