Enski boltinn

Verður reiður á að horfa á Antony og vill að hann verði seldur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Antony hefur ekki náð sér á strik með Manchester United í vetur.
Antony hefur ekki náð sér á strik með Manchester United í vetur. getty/Robbie Jay Barratt

Dimitar Berbatov, fyrrverandi leikmaður Manchester United, er ekkert sérstaklega hrifinn af brasilíska kantmanninum Antony og segir að félagið gæti þurft að selja hann ef hann tekur sig ekki taki.

Antony hefur ekki náð sér á strik með United í vetur og hvorki skorað né lagt upp mark í 22 leikjum í öllum keppnum. Berbatov kveðst vera búinn að fá nóg af Brassanum.

„Fyrir mig, sem stuðningsmann, þá verð ég reiður þegar ég horfi á hann spila því þetta er pirrandi. Ég vil ekki bera hann saman við neinn því allir leikmenn ganga í gegnum erfiðleika. En ef Antony nær sér ekki á strik þarf hann að fara,“ sagði Berbatov.

„Ég finn samt aðeins til með honum því hann er augljóslega hæfileikaríkur og ég sé að hann reynir stundum. Hann virðist vera reiður og pirraður þegar hann spilar og þess vegna reynir hann hluti og flækir þá, tapar boltanum og verður enn pirraðri.“

Berbatov sagði að Antony þyrfti að fá góð ráð til að bæta spilamennsku sína.

„Hann þarf einhvern á vellinum til að sýna sér hvert og hvernig hann á að hlaupa og hvenær hann á að losa sig við boltann. Ef hann finnur ekki lausnirnar sjálfur þarf hann þjálfara, vin, umboðsmann, föður til að gefa sér ráð,“ sagði Berbatov.

„Ef hann leiðréttir vitleysurnar verður hann góður fyrir liðið. Hann þarf fyrst og fremst að vera klókur og þú þarft að geta tekið gagnrýni. Ef frammistaða hans hefur ekki lagast í lok tímabilsins horfir hann væntanlega í kringum sig.“

United keypti Antony frá Ajax fyrir síðasta tímabil. Hann hefur leikið 66 leiki fyrir Manchester-liðið og skorað átta mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×