Woman Goal stendur fyrir æfingum í Miðgarði í Garðabæ um komandi helgi fyrir knattspyrnukonur, 17 ára og eldri, þar sem í boði er styrktarsamningur við Woman Goal og tækifæri til þess að komast út í atvinnumennsku. Markmið Woman Goal er að hvetja til eflingar kvennaknattspyrnu og er Ísland fyrsta Evrópulandið sem æfingabúðirnar verða haldnar í.
Knattspyrnumaðurinn Gonzalo Zamorano, sem leikið hefur við góðan orðstír hér á landi undanfarin ár, er tengiliður Woman Goal hér á landi.

„Við sjáum að kvennaboltinn er í örum vexti og þurfum að auka sýnileika og gefa kvenkyns leikmönnum tækifæri. Það er í grunninn aðal markmið Woman Goal. Að gefa þeim vettvang til þess að sýna listir sýnar og veita þeim tækifæri til að láta ljós sitt skína. Þær eiga það skilið.“
Um er að ræða verkefni á heimsvísu en sambærilegar æfingabúðir hafa farið fram í öðrum löndum og stendur þetta tækifæri kvenkyns leikmönnum yfir sautján ára aldri til boða þeim að kostnaðarlausu.
Þer í gegnum tengingu Gonzalo við yfirmann íþróttamála hjá Woman Goal sem æfingabúðir verða haldnar hér á landi um helgina.
„Ég hef sjálfur tekið eftir því yfir tíma minn á Íslandi, og sagði honum það, hversu hátt gæðastigið í fótboltanum hér á landi er. Það er mjög hátt. Þetta er lítið samfélag en gæðastigið er mjög hátt þrátt fyrir það, bæði í kvenna- og karlaboltanum. Í sameiningu þurfum við bara að gefa þessum leikmönnum sviðið og leyfa þeim að láta ljós sitt skína.“
Og vísar Gonzalo þar í vilja Woman Goal í að starfa með fótboltafélögum til þess að auka sýnileika og tækifæri fyrir kvenkyns leikmenn.
„Það er mikilvægt að fólk á Íslandi viti að Womans Goal er ekki að fara halda þessar æfingabúðir á Íslandi í þeim tilgangi að stela leikmönnum. Þetta er ekki umboðsskrifstofa. Þetta snýst bara, eins og ég hef sagt áður um sýnileika og tækifæri.“
Nánari upplýsingar um æfingarbúðir Womans Goal má finna hér. Þá er hægt að skrá sig í æfingabúðirnar í gegnum þennan hlekk.