Enski boltinn

„Vinnum ekki deildina nema við bætum okkur í báðum teigum“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Arteta á æfingasvæði Arsenal.
Arteta á æfingasvæði Arsenal. Vísir/Getty

Arsenal tapaði 2-0 gegn West Ham í ensku úrvalsdeildinni á fimmtudagskvöld þrátt fyrir að hafa átt þrjátíu marktilraunir í leiknum. Mikel Arteta knattspyrnustjóri liðsins segir enga hræðslu vera í leikmannahópi liðsins.

Sigur West Ham gegn Arsenal á fimmtudag var nokkuð óvæntur enda Arsenal að berjast á toppi deildarinnar. Arsenal átti 30 skot og 77 sendingar í teig andstæðingsins án þess að skora mark en það er það mesta í ensku úrvalsdeildinni síðan tímabilið 2008-09.

„Það er engin hræðsla, þetta snýst um að gera meira og betur og vinna leiki. Ef liðið spilar svona þá munum við vinna marga leiki,“ sagði Mikel Arteta knattspyrnustjóri Arsenal á blaðamannafundi í gær.

„Ef við bætum okkur ekki í teigunum þá vinnum við ekki deildina. Því að lokum þá er niðurstaðan þessi,“ bætti hann við og vísaði í leikinn gegn West Ham.

„Litu út fyrir að vera ferskir“

Arsenal leikur gegn Fulham á útivelli á morgun. Arsenal hefur aðeins gert eina breytingu á byrjunarliði sínu í síðustu þremur leikjum. Kai Havertz spilaði ekki gegn West Ham þar sem hann var í leikbanni. Arteta hefur þó ekki áhyggjur af þreytu hjá leikmönnum sínum.

„Það er mikið af leikjum núna en þeir litu út fyrir að vera ferskir. Þegar þú vinnur, þá pælir þú ekki í þessu. Þeir eru ungir, þetta væri öðruvísi ef þeir væru 35 ára. Þeir eru með mikla orku og geta haldið áfram, það er á hreinu.“

„Þú nærð ekki því sem liðið gerði gegn West Ham án neista í hópnum. Það er lokahnykkurinn, lokasnertingin sem kemur boltanum í netið. Það er það sem við þurfum.“

Fastlega er búist við að Arsenal reyni að bæta leikmanni í hópinn þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúar. Helst er horft til framherjastöðunnar en fjárhagsreglur ensku úrvalsdeildarinnar gætu komið í veg fyrir að Arteta fái að eyða þeim fjárhæðum sem hann hefði viljað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×