Sport

Keypti Porsche handa konu liðsfélaga síns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ashley Kelly með Joe Kelly og börnunum. Til hliðar er Shohei Ohtani með treyju númer sautján.
Ashley Kelly með Joe Kelly og börnunum. Til hliðar er Shohei Ohtani með treyju númer sautján. Samsett/@ashleynicokelly og AP

Hann var eftirsóttur og fékk stærsta samning sögunnar. Hann var líka mjög þakklátur einni konu.

Shohei Ohtani skrifaði undir tíu ára samning við Los Angeles Dodgers hafnaboltaliðið í byrjun desember og fær hann samtals sjö hundruð milljónir Bandaríkjadala fyrir.

Þetta er stærsti samningur sögunnar og þarna er eitt Los Angeles félag, Dodgers, að stela leikmanni frá öðru Los Angeles liði, Angels, þar sem Ohtani hefur spilað fyrstu fimm árin sín í Bandaríkjunum.

Ohtani er frábær leikmaður. Hann var samningslaus og bandarísku félögin kepptust við að bjóða honum lúxussamninga. Hann valdi að lokum Dodgers liðið enda erfitt að hafna 96 milljörðum króna.

Ein af þeim sem barðist hvað mest fyrir því að fá Ohtani til Dodgers var Ashley Kelly. Hún er gift Joe Kelly leikmanni Dodgers liðsins.

Ashley kom myllumerkinu #Ohtake17 á flug á samfélagsmiðlum. Hún vildi að Ohtani tæki treyjunúmerið af eiginmanninum sínum. Hún gekk meira að segja svo langt að segja að þau myndi skíra son sinn Kai Shokai ef hann myndi semja við Dodgers.

Svo fór á endanum að Ohtani valdi Los Angeles Dodgers fram yfir öll hin áhugasömu liðin og fékk að auki treyju númer sautján frá Kelly sem færði sig yfir í 99 í staðinn.

Ohtani var mjög þakklátur fyrir framtak Ashley og ákvað að færa henni gjöf. Það var engin smágjöf.

Dodgers sýndi frá því á samfélagsmiðlum sínum þegar Ashley opnar dyrnar og sér nýjan silfraðan Porsche fyrir utan húsið.

„Þetta er þinn bíll... kveðja Shohei,“ var skrifað undir. Ohtani keypti því Porsche bíl handa konu liðsfélaga síns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×