Veðurstofan spáir suðaustan átta til fimmtán metrum á sekúndu um landið austanvert, en hægari norðlæga átt vestantil. Það gengur í norðaustan um landið vestanvert í dag, og hvessir aðeins í kvöld þar sem er gert ráð fyrir tíu til átján metrum á sekúndu í kvöld, en hægari suðaustantil.
„Snjókoma með köflum eða él, en þurrt að kalla vestanlands. Yfirleitt frostlaust við suður- og austurströndina, en frost annars 0 til 10 stig, kaldast inn til landsins,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Fram kemur að í nótt dragi síðan úr ofankomunni og á morgun fimmtudag verði úrkoman orðin ansi lítil á landinu, en á móti herði frost, einkum inn til landsins.
„Áramótaveðrið er óðum að taka á sig mynd og eins og spáin er núna er það þokkalegt víðast hvar, él á stangli en hörkufrost um kvöldið. Undanfarna daga hefur verið mikill breytileiki í spánum svo enn er möguleiki á að spáin eigi eftir að breytast,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Norðaustan 5-13 m/s og dálítil él, en lengst af bjart með köflum sunnan- og vestanlands. Frost 0 til 12 stig, minnst syðst.
Á föstudag og laugardag: Hæg norðaustlæg eða breytileg átt og dálítil snjókoma með köflum, en úrkomulítið austantil. Frost víða 1 til 15 stig, kaldast austanlands, en frostlaust syðst.
Á sunnudag (gamlársdagur): Líklega fremur hæg norðvestlæg átt og skýjað með köflum og úrkomulítið, en dálítil snjókoma suðaustanlands. Talsvert frost.
Á mánudag (nýársdagur): Hæg breytileg átt, bjart og kalt veður.
Á þriðjudag: Útlit fyrir þurra suðlæga átt og minnkandi frost.