Líkur á öðru eldgosi á Reykjanesskaga fara vaxandi að mati sérfræðinga Veðurstofunnar. Líklegasta upptakasvæði fyrir eldgos er á milli Stóra-Skógsfells og Hagafells. Stöðugt landris mælist við Svartsengi og hefur gert það síðan á mánudag. Búist er við því að gos geti hafist með litlum fyrirvara, þegar tekur að draga úr hraða landrissins.
Ef land heldur áfram að rísa við Svartsengi má búast við „einhverjum atburðum“ þegar landrisið nær sömu hæð og var fyrir eldgos síðastliðinn mánudag. Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði,
„Miðað við þennan hraða þá myndi þetta ná þeirri hæð á svona tíu dögum til tveimur vikum,“ segir Þorvaldur.
Treystir sér til að gista í Grindavík
Frá og með morgundeginum mega Grindvíkingar vera í bænum að næturlagi, en það hefur þeim ekki verið heimilt frá því bærinn var rýmdur 10. nóvember. Nú hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum heimilað það, á grundvelli uppfærðs hættumats Veðurstofunnar.
„Ég held að það sé bara góð ákvörðum að mörgu leyti, vegna þess að það er lægð í virkninni og þegar við erum með litla virkni þá á hættustigið að minnka. Við erum með litakóða til þess að gefa til kynna hver hættan er. Ef atburður hagar sér þannig að hættan sé að aukast, þá er bara að hækka hættustigið aftur,“ segir Þorvaldur.
Mikilvægast sé að skýra stöðuna vel út fyrir Grindvíkingum og öðrum landsmönnum.
Aðspurður segist Þorvaldur sjálfur treysta sér til að gista í Grindavík í nótt.
„Virknin virðist hafa færst að mestu leyti norðurfyrir á milli Hagafells og Sýlingafells, eða Stóra-Skógfells. Ef maður horfir aftur í tímann, eins og margir hafa verið að gera, aftur í Kröfluelda, þá er þetta nú kannski svipað. Vegalengdirnar eru kannski ekkert ólíkar, frá byggðu bóli og að þeim stað þar sem virknin er,“ segir Þorvaldur.
„Og það rýmdi enginn Reykjahlíð á sínum tíma.“