Leikir átta liða úrslitanna fá heldur betur sviðið því enginn annar leikur fer fram á sama tíma.
Þetta er í fyrsta sinn sem þessi keppni fer fram og það eru stórar fjárhæðir í boði fyrir leikmenn liðanna.
Leikmenn liða í undanúrslitum eru öryggir með hundrað þúsund dollara (14 milljónir króna), leikmenn í úrslitaleiknum fá tvö hundruð þúsund dollara (28 milljónir króna) og leikmenn bikarmeistaranna fá hálfa milljón dollara hver eða sjötíu milljónir íslenskra króna.
Liðin sem vinna leikina í átta liða úrslitum tryggja sér sæti á úrslitahelginni í Las Vegas en hún verður strax um næstu helgi.
Boston Celtics mætir Indiana Pacers í fyrri leik kvöldsins en það er þegar ljóst að Boston verður án lykilmanns í leiknum.
Joe Mazzulla, þjálfari Celtics, staðfesti að Kristaps Porzingis verði ekki með liðinu í þessum leik. Porzingis er meiddur á kálfa og staðan á honum verður metin að nýju eftir viku. Hann verður því heldur ekkert með í Vegas takist Boston að komast þangað. ESPN segir frá.
Porzingis hefur verið að spila vel á sínu fyrsta tímabili með Boston Celtics en hann er með 19 stig í leik og 55 prósent skotnýtingu.
WIN OR GO HOME
— NBA (@NBA) December 4, 2023
With a trip to Vegas on the line we re less than 24 hours from Knockout Rounds action getting underway!
The first-ever NBA In-Season Tournament continues with the Quarterfinals on Monday, 12/4 and Tuesday, 12/5 on TNT. pic.twitter.com/M3gCWVpLUR
Indiana er líka með menn í meiðslum. Hinn öflugi Tyrese Haliburton missti af síðasta leik vegna veikinda og meiðsla í hné og það er ekki öruggt að hann verði með í kvöld. Jalen Smith verður ekki með liðinu vegna meiðsla.
Haliburton hefur verið frábær á leiktíðinni, með 27 stig og 11,8 stoðsendingar að meðaltali í leik. Það er því lífsnauðsynlegt fyrir Indiana að hann verði leikfær í nótt.
Pacers og Celtics unnu bæði riðla sína í riðlakeppninni en Indiana vann þar alla fjóra leiki sína á meðan Boston nægði að vinna þrjá af fjórum. Leikur liðanna verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2 og hefst útsendingin klukkan hálfeitt eftir miðnætti.
Í hinum leiknum í nótt tekur Sacramento Kings á móti New Orleans Pelicans.
After ELECTRIC action in group play, the 8 teams are set. Win or go home.
— NBA (@NBA) December 3, 2023
The Knockout Rounds for the first-ever NBA In-Season Tournament tip off with the Quarterfinals on Monday, 12/4 and Tuesday, 12/5 on TNT pic.twitter.com/AugXn4XX11