Íslenska liðið situr í 71. sæti á nýjasta FIFA-listanum og hefur ekki verið neðar á listanum í tíu ár.
Þjóðirnar sem hoppuðu upp fyrir Ísland voru Svartfjallaland, Úsbekistan, Írak og Sameinuðu arabísku furstadæmin.
Íslenska landsliðið hafði aldrei farið neðar en 67. sæti á undanförnum áratug. Liðið hóf þetta ár í 63. sæti og er því átta sætum neðar núna.
Þetta er versta staða karlalandsliðsins á listanum síðan í júlí 2013. Þá var íslenska liðið í 73. sæti. Lars Lagerbäck hafði þá farið með íslensku strákana úr 130. sæti niður í það 61. á rúmu ári en á listanum í júlímánuði datt íslenska liðið aftur niður um tólf sæti.
The latest #FIFARanking is here!
— FIFA World Cup (@FIFAWorldCup) November 30, 2023
Tap the table to read more.
Eftir það var aftur á móti leiðin upp á við. Íslenska liðið var komið upp í 54. sæti á listanum í september þetta sama ár, 2013, og var í 46. sætinu í október.
Hæst komst íslenska liðið síðan í 18. sæti í marsmánuði 2018 en á árunum 2016 til 2018 var íslenska landsliðið meðal þeirra þrjátíu bestu í heimi samkvæmt mælikvarða Alþjóða knattspyrnusambandsins.
Undanfarin ár hefur íslenska liðið síðan fallið hratt niður listann og nú er vonandi botninum náð.
Fram undan eru umspilsleikir í mars, leikir sem geta komið íslenska liðinu á EM. Þar mæta íslensku strákarnir Ísrael í undanúrslitum en Ísraelsmenn fóru líka niður um fjögur sæti eins og Ísland. Ísrael er því áfram fjórum sætum neðar á FIFA-listanum eða í 75. sætinu.
Argentína og Frakkland halda efstu tveimur sætum listans en England og Belgía fara upp fyrir Brasilíu. Samkvæmt listanum eiga Englendingar nú þriðja besta karlalandslið heims og fjórða besta kvennalandsliðið.