Lífið

Svona var lífið hjá setu­liðinu í Kefla­vík árið 1955

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Myndirnar í safninu veita einstaka innsýn í líf ungs hermanns í Keflavík á eftirstríðsárunum.
Myndirnar í safninu veita einstaka innsýn í líf ungs hermanns í Keflavík á eftirstríðsárunum. Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur

Fyrir nokkrum árum rakst Einar Óskar Sigurðsson fyrir tilviljun á ljósmyndasafn til sölu á Ebay. Hluti myndanna reyndust vera frá Íslandi á árunum eftir seinna stríð og voru teknar af óþekktum bandarískum manni sem gegndi herþjónustu hér á landi á sjötta áratugnum.

Þegar Einar Óskar fékk myndirnar í hendurnar sat hann áfanga undir handleiðslu Orra Jónssonar í Ljósmyndaskólanum og ákvað hann að nýta myndasafnið í lokaverkefni áfangans. Útkoman var bókverk sem ber titilinn „Mother and Alice“ og dregur nafn sitt af einu upplýsingunum sem Einar hafði í höndunum um ljósmyndarann og myndefnið. Þessi nöfn voru hripuð utan á eitt filmuumslagið innan um almennar framköllunarupplýsingar.

Heildin skiptir öllu máli í frásögninni

Að sögn Einars voru myndirnar í eigu bandarísks safnara sem setti þær í sölu á uppboðsvefnum. Umræddur safnari hafði komist yfir myndirnar á bílskúrssölu og hafði þar af leiðandi enga hugmynd um uppruna þeirra.

Einar Óskar lagðist í mikla og djúpa rannsóknarvinnu eftir að hann fékk myndirnar í hendurnar.Saga Sig

„Það má segja að ég hafi keypt þetta „blindandi," segir Einar. 

„Ég var bara með negatívur en sá engar myndir, ekki fyrr ég skannaði þær. Eftir að hafa fengið þær í hendurnar lagði ég mikla vinnu í að skanna myndirnar, rykhreinsa og laga til í myndvinnsluforriti því þær voru í mjög misjöfnu ástandi. Ég ákvað þó að fara varlega í myndvinnsluna því ég vildi bera virðingu fyrir uppbyggingu og stíl ljósmyndarans og tók ákvörðun um að klippa þær ekki til eða rétta þær af á neinn hátt.“

Af myndunum má ráða að myndasmiðurinn hafi verið ungur maður í flughernum og verið staðsettur á Íslandi í kringum 1955. Stór hluti myndanna úr safninu sýna síðan líf hans vestan hafs. Ljósmyndirnar sem að endingu skiluðu sér í bókverk Einars voru 50 talsins, valdar úr 600 ljósmyndum.

„Ég ákvað að raða þeim saman og para myndir í áhugaverða en um leið óræða seríu sem setur lesandann í þá stöðu að þurfa að ráða í atburðarásina sjálfur,“ segir Einar en hann segir það jafnframt hafa verið erfitt að velja úr safninu án þess að myndirnar yrðu of margar.

Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur

„Það var ekki nóg að velja aðeins þær flottustu. Margar af fallegustu myndunum enduðu ekki í bókinni og var niðurskurðurinn oft erfiður því það er jú heildin sem skiptir öllu máli í frásögninni og hvernig myndirnar ganga upp sem heild.“

Einar prentaði allar myndirnar út á vandaðan ljósmyndapappír svo hægt væri að raða upp í seríur og gera tilraunir með söguþráð.

Hluti myndanna enduðu í bókverki Einars sem ber titilinn "Mother and Alice."Einar Óskar Sigurðsson

„Ég lék mér að því að dreifa úr safninu fyrir framan vini og venslafólk og bað þau um að hópa saman myndum í áhugaverðar seríur. Það var gaman að sjá hversu ólíka nálgun fólk hafði í uppröðuninni og skemmtilegast þótti mér þegar það gaf ímyndunaraflinu lausan tauminn. Mér þótti áhugaverðast að sjá þegar börnin fengu að raða myndunum í stuttar sögur því þau eru hömlulaus í sköpunargleðinni og oft bjuggu þau til áhugaverðustu frásagnirnar,“ segir Einar jafnframt og bendir á að með því að raða myndum í seríu stígur sögumaðurinn að vissu leyti til baka, áhorfandanum er gefið aukið svigrúm og aðrir þættir fara að hafa áhrif.

„Ljósmyndin sjálf er í grunninn lítið annað en upplýsingar og efniviður en galdurinn gerist að miklu leyti í uppröðuninni og „þögninni“ sem ríkir á milli myndanna.“
Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur

Ljósmyndir geta logið

Hann segir helstu áskoranirnar hafa falist í myndavali og uppröðun myndanna.

„Í ferlinu rak ég mig oft á sama vegginn. Ég hugsaði svo mikið um hver ljósmyndarinn væri og af hverju hann tók þessar myndir að það hafði merkilega neikvæð áhrif á ímyndunaraflið.“

Eitt af því sem stendur upp úr við verk Einars er hin endalausa leit að sannleikanum, þar sem möguleikarnir eru nær óendanlegir. Hann bendir á að sannleikurinn oft órafjarri því sem áhorfandinn les út úr myndinni.

Hann segir margt hafa vakið sig til umhugsunar í þessu ferli.

„Annars vegar fór að velta því fyrir mér hvað gerist þegar að við horfum á staka ljósmynd og hvað hefur áhrif á afstöðu áhorfandans. Hins vegar langaði mig að rannsaka betur hvað gerist þegar ljósmyndir eru settar upp í röð eða seríu, hvort önnur lögmál gildi um það hvað gerist við „lesturinn“ og hvaða ósýnilegu þættir leiða áhorfendur að mismunandi niðurstöðu.“

Hann nefnir sem dæmi myndirnar sem hermaðurinn tók hér á landi.

„Þær eru flestar uppstilltar og sendar í umslagi yfir hafið til þess að sýna fjölskyldunni heima í Bandaríkjunum að herþjónustan sé leikur einn og hann hafi það gott á meðan sannleikurinn er kanski allt annar. Margar af myndum hermannsins frá dvöl hans á Íslandi eru glaðlegar og af fallegum augnablikum," segir Einar.

Við fyrstu sýn virðist lífið hafa leikið við hann á Keflavíkurflugvelli en eftir því sem ég les mér meira til um líf hermanna á flugvellinum á þessum tíma og set mig í spor hans get ég ekki ímyndað mér að þetta sé  gefi rétta mynd af lífinu og líðan dátanna á vellinum. Ljósmyndir ljúga nefnilega á sama tíma og við höldum að þær séu að segja okkur sannleikann og geta jafnvel vakið upp fleiri spurningar eftir því sem kafað er dýpra í leit að sannleikanum.
Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur

Þegar Einar útskrifaðist úr Ljósmyndaskólanum árið 2022 var lokaverkefnið hans unnið upp úr þessu sama safni og hlaut titilinn HISSTORY, sem er skemmtilegur leikur að orðum.

Ég var búinn að hafa þetta myndasafn á heilanum í 4 ár og fannst ég verð að gera eitthvað meira við það," segir hann.

Frá sýningu Einars í Ljósmyndaskólanum.Einar Óskar Sigurðsson

„HISSTORY er marglaga rannsókn á tilvist ungs hermanns sem lítið er vitað um og lífi hans beggja vegna Atlantsálanna um miðja síðustu öld. Listamaðurinn vinnur með fundið efni, bregður sér í hlutverk sagnfræðings og leikur sér með samspil ljósmynda og texta í frásögn. Tíminn er sveigður með því að bæta í frásögnina myndum úr nútímanum og forvitnilegum sönnungargögnum frá þeim tíma sem horft er til. Frásagnarformið sveiflast fram og aftur á milli skáldskapar og staðreynda þar sem gerðar eru tilraunir með afstöðu áhorfandans sem fær að taka þátt í því að móta söguna.

Ljósmyndirnar eru þöglar en hlaðnar upplýsingum. Við ferðumst á milli rammanna, getum í tómið á milli þeirra og beitum eigin ímyndunarafli og persónulegri reynslu til þess að móta sögu þessa manns sem ekkert okkar þekkti. Sannleikurinn er aðeins til í huga okkar og í jafn ólíkum útgáfum og við erum mörg“

segir í lýsingu Einars á verkinu.

Löng og strembin leit

Í kjölfar þess að Einar fór að vinna með myndirnar kviknaði hjá honum löngun til að hafa uppi á eigandanum sjálfum. Sem fyrr segir gat seljandinn ekkert gefið upp um uppruna myndanna. Einar reyndi þar af leiðandi að finna vísbendingar með því að rýna í myndirnar. Honum tókst þannig meðal annars að finna eftirnafn mannsins og heimafylki hans í Bandaríkjunum. Hann fór á stúfana og leitaði upplýsinga víða, meðal annars í herskrám og þjóðskrá ytra. Eftir langa leit rakst hann á mann sem virtist vera umræddur hermaður.

„Þá komst ég yfir fullt af upplýsingum um hann og gat getið í rosalega margar eyður, en að sama skapi fann ég fyrir ákveðnum leiða. Af því að á þessum tímapunkti var ég búinn að búa til ákveðinn heim í kringum hann sjálfur.“

Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur
Ég fór líka óhefðbundar leiðir í leit að „sannleikanum“ eða minni túlkun á honum. Ég fór til miðils, heimsótti staðina á myndunum, velti við steinum í leit að sönnunargögnum, setti mig í spor hermannsins og skrifaði texta „í gegn um hann.

Einar segir að nú þegar nokkur ár liðin eru síðan bókin var unnin þá hafi margar dyr opnast hvað varðar möguleika hans á nýjum nálgunum og hefur hann leitað innblásturs í skáldsögum, öðrum verkum og listformum sem hafa hjálpað honum að nálgast verkefnið frá nýjum hliðum.

„Það er eitt atriði sem hefur sérstaklega vakið athygli mína í þessu rannsóknarferli. Stór hluti þess að lesa ljósmynd eða röð ljósmynda og burðarstólpinn í að mynda sér skoðun á samhenginu á sér stað utan rammans. Það er hér sem áhorfandinn verður virkur, stígur inn í og býr til sína eigin útgáfu af sögunni og myndar tengingu við viðfangsefnið. Huglægt mat áhorfandans á því óræða sem brúar bilið milli myndanna mótar söguna.

Svo er ég líka búinn að vera að vinna mikið með mig sjálfan í þessu samhengi. Ég er ekki ljósmyndarinn, ekki viðfangsefnið og ekki áhorfandinn. Ég er fjórða elementið í þessu og því fylgir mikil ábyrgð en líka merkilegt frelsi. Hvað gerist þegar ég mynda sjálfur, finn „sönnunargögn“ og set í samhengi við myndirnar?

Ég get lítið gert til þess að endursegja líf hermannsins og mögulega yrði sú leið óáhugaverðasta útkoman. Ef ég stari inn í tómið, leyfi mér að skálda í eyðurnar og kveikja í áhorfandanum með inngripum gæti verkið orðið stærra. Ég get stigið inn í verkið og stækkað fyrir áhorfandanum svo upplifun hans verði sterkari og sagan áhugaverðari.“

Á Instagramsíðu Einars Óskars er hægt að fylgjast áfram með verkefninu.

Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur
Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur
Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur
Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur
Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur
Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur
Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur
Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur
Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur
Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur
Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur
Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur
Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur
Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur
Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur
Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur
Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur
Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur
Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur
Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur
Einar Óskar Sigurðsson/Óþekktur

Tengdar fréttir

Þegar unglingarnir söfnuðust saman á Hallærisplaninu

Á sjöunda, áttunda og níunda áratugnum var Hallærisplanið, þar sem nú er Ingólfstorg, einn helsti samkomustaður unglinga um helgar. Í raun má segja að planið hafi breyst í nokkurs konar félagsmiðstöð á föstudags og laugardagskvöldum þar sem nokkur þúsund ungmenni söfnuðust  saman.

Svona leit Reykjavík út árið 1970

Í upphafi áttunda áratugarins var miðborg Reykjavíkur töluvert öðruvísi en í dag. Þar sem nú er verslunarhúsnæði var áður Morgunblaðshúsið. Þar sem nú er veitingastaðurinn Hjá Jóni var áður Landsíminn og þar sem nú er veitingastaðurinn Apótekið var áður raunverulegt apótek.

Manstu eftir Sæ­dýra­safninu í Hafnar­firði?

„Sædýrasafn hefur verið sett á stofn í Hafnarfirði og verður það opnað næstkomandi fimmtudag. Í safninu eru nú búr sem rúma 52 tonn af vatni og eru nú þegar um 30 tegundir sjávardýra í þeim, þar af 17 fiskategundir.“ Þannig hófst frétt sem birtist í Morgunblaðinu þann 7. maí árið 1969.

Ein­stakar ljós­myndir sýna stemninguna á Kvenna­frí­deginum árið 1975

24. október 1975. Tugir þúsunda íslenskra kvenna ganga út af vinnustöðum sínum og safnast saman á einum stærsta útifundi Íslandssögunnar. Fjölmargir fundir eru haldnir um allt land sem eru einnig vel sóttir. Karlmennirnir sitja eftir og sinna ritstörfum, símavörslu, móttöku og barnagæslu. Kvennafrídagurinn er runninn upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.