„Varnarlega vorum við mjög 'solid', mjög þéttir til baka og sköpum líka nokkra mjög góða sénsa sem við hefðum getað klárað. Þannig að það er fullt af jákvæðum hlutum sem við getum tekið úr þessum leik“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson, fyrirliði Íslands, strax að leik loknum.
Jóhann sagði það erfitt verkefni að spila gegn jafn sterku liði og Portúgal býr yfir, þar sem finna má hæfileikaríka leikmenn í öllum stöðum vallarins.
„Þetta er auðvitað gríðarlega erfitt. Frábærir leikmenn og það þarf að passa alla. Það er ekki bara þessi nr. 7, það eru margir þarna sem eru ansi góðir. Þetta var fínt próf fyrir varnarlínuna í dag, næsta skref er að klára færin og setja saman alvöru frammistöðu.“
Möguleikar liðsins að komast upp úr riðlinum urðu að engu síðastliðinn fimmtudag og liðið hafði því ekki að neinu að keppa í kvöld. Ísland gæti þó enn komist á EM, að öllum líkindum verður umspilsleikur í mars 2024 og því mikilvægt að halda liðinu heitu og gefa ekkert eftir.
„Þetta er eitt skref fram á við, vonandi fáum við umspilsleik í mars, tökum fleiri skref fram á við og komum okkur á EM.“
Viðtalið allt má sjá í spilaranum hér að neðan.