Fótbolti

Ramos veitti Shakiru verð­laun fyrir lagið sem gagn­rýnir Piqu­e

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ramos og Shakira.
Ramos og Shakira. Instagram@sergioramos

Sergio Ramos og Gerard Piqué grófu stríðsöxina er þeir spiluðu með spænska landsliðinu en öllu jafna voru þeir óvinir innan vallar sem utan. Ramos spilaði lengi vel með Real Madríd og Piqué með Barcelona. Þó Piqué sé hættur að spila tókst Ramos að eiga síðasta höggið.

Piqué var í meira en áratug í sambandi með tónlistarkonunni Shakiru, eiga þau saman tvo syni. Það flosnaði upp úr sambandi þeirra eftir að í ljós kom að Piqué hafði haldið framhjá eiginkonu sinni. Samdi Shakira lagið Bzrp Music Sessions, Vol. 53 um sambandsslitin.

Lagið, sem er í raun ein stór gagnrýni á Piqué, kom út í janúar á þessu ári og hefur notið gríðarlegra vinsælda. Hefur það slegið ýmis met og var á endanum tilnefnt til Latin Grammy-verðlauna.

„Ég er tveggja 22 ára stelpna virði,“ segir Shakira í laginu en Piqué er í dag í sambandi með hinni 23 ára gömlu Clara Chia. Þá segir hún að Piqué hafi skipt Ferrari út fyrir Twingo.

Shakira fór á endanum með sigur af hólmi á Latin Grammu-verðlaunum og til að nudda Piqué enn frekar upp úr því hversu vinsælt lagið er þá var Sergio Ramos mættur að veita verðlaunin en athöfnin var að þessu sinni haldin í Seville þar sem Ramos spilar nú.

Shakira þakkaði stuðningsfólki sínu fyrir að koma henni í gegnum þennan erfiða tíma og tileinkaði spænsku þjóðinni verðlaunin en söngkonan er frá Kólumbíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×