Ein árás var gerð á þjálfunarmiðstöð í Abu Kamal í Sýrlandi og á meinta stjórnstöð byltingarvarða Íran og tengdra sveita í Mayadin.
Byltingarverðir Íran, sem er stærsta og valdamesta deild hers landsins, heyrir eingöngu undir Ayatollah Ali Khamenei, æðstaklerk Íran, sem stjórnar landinu. Þeir hafa lengi verið í Íran og flytja þessar hersveitir meðal annars vopn til vígahópa sem yfirvöld í Íran styðja víðsvegar um Mið-Austurlönd.
Sjá einnig: Varpa enn sprengjum á byltingarverði í Sýrlandi
Heimildarmenn fjölmiðla vestanhafs segja líklegt að mannfall hafi orðið í loftárásunum og að markmiðið hafi einnig verið að granda vopnabirgðum sem voru á báðum stöðunum. Einn embættismaður sagði blaðamanni AP fréttaveitunnar til að mynda talið væri að byltingarverðir Íran hefðu verið í húsnæðinu í Mayadin og hefðu líklega fallið.
Árásirnar voru gerðar á sunnudaginn og var það í þriðja sinn sem Bandaríkjamenn gera árásir sem þessar á tveimur vikum. Með þeim vilja Bandaríkjamenn þvinga Írana og vígahópa þeirra til að hætta árásum á bandaríska hermenn í Írak og Sýrlandi. Tölur um fjölda þessara árása eru á nokkru kreiki eða allt frá rúmlega fimmtíu í rúmlega sjötíu á undanförnum mánuði.
Þær hófust eftir að sprenging varð við sjúkrahús á Gasaströndinni þann 17. október. Í flestum tilfellum hefur eldflaugum verið skotið að bandarískum herstöðvum eða sjálfsprengidrónum flogið að þeim.
Ekki virðist sem það hafi tekist, þar sem fregnir hafa borist af áframhaldandi árásum á bandaríska hermenn. CNN sagði í gær að minnst fjórar árásir hefðu verið gerðar á bandaríska hermenn í Sýrlandi frá því á sunnudaginn. Enginn er þó sagður hafa særst í þessum árásum.
Heimildarmenn miðilsins segja árásirnar bæði hafa gerðar með eldflaugum og sjálfsprengidrónum.