Körfubolti

Haukar reka stigahæsta leik­mann deildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jalen Moore í sínum síðasta leik með Haukum sem var í tapi í tvíframlengdum leik á móti Val.
Jalen Moore í sínum síðasta leik með Haukum sem var í tapi í tvíframlengdum leik á móti Val. Vísir/Hulda Margrét

Bandaríski bakvörðurinn Jalen Moore hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Hauka í Subway deild karla í körfubolta. Hann er stigahæsti leikmaður deildarinnar þegar hann er látinn taka pokann sinn.

Haukarnir eru þar með þriðja liðið í deildinni til að gera breytingar á erlendum leikmönnum sínum í upphafi tímabils en áður höfðu Tindastóll og Breiðablik sent leikmenn heim.

Subway Körfuboltakvöld Extra fékk fréttirnar af Jalen Moore staðfestar í dag en þessi óvænta ákvörðun Maté Dalmay og Haukanna verður einmitt tekin fyrir í þætti kvöldsins.

„Það er búið að reka hann samkvæmt mínum heimildarmönnum sem ég tel nokkuð trausta. Ef maður rýnir í hráa tölfræði þá skýtur það skökku við að hann sé að fara. Einn stoðsendinga- og stigahæsti leikmaður deildarinnar. Aftur á móti þá hafa Haukarnir lítið verið að vinna,“ sagði Tómas Steindórsson.

Jalen Moore skoraði 34 stig, tók 16 fráköst og gaf 6 stoðsendingar í sínum síðasta leik með Hafnarfjarðarliðinu þar sem Haukarnir töpuðu á móti Val í tvíframlengdum leik.

Í sex leikjum með liðinu var Moore með 27,3 stig, 9,1 frákast og 8,2 stoðsendingar að meðaltali í leik. Ekki slæmar tölur en liðinu hefur ekki gengið vel. 

Hann er samt stigahæsti leikmaðurinn í deildinni til þessa með tæpum þremur stigum meira að meðaltali en næsti maður. Moore er líka með flesta stolna bolta í leik (3,3) og er í þriðja sæti í stoðsendingum í leik.

Tölfræðin úr leikjum Jalen Moore.

Hann gaf fjórtán stoðsendingar í fyrsta leik, tólf stoðsendingar (og þrenna) í sigri á Hamar og hefur skorað 29 stig eða meira í þremur af sex leikjum sínum.

Haukaliðið hefur aftur á móti tapað tveimur leikjum í röð og er í tíunda sæti deildarinnar með tvo sigra og fjögur töp.

Subway Körfuboltakvöld Extra er á dagskránni á Stöð 2 Sport 5 í kvöld og hefst þátturinn klukkan 20.00. Gestur kvöldsins hjá Stefán Árna Pálssyni og Tómasi Steindórssyni er Mikael Nikulásson. Það má sjá brot úr þættinum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×