Körfubolti

Allt í blóma hjá liðinu sem losnaði við Harden en allt í rugli hjá nýja liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 James Harden byrjar ekki vel með liði Los Angeles Clippers.
 James Harden byrjar ekki vel með liði Los Angeles Clippers. Getty/Meg Oliphant

James Harden gerði allt til þess að komast frá Philadelphia 76ers til Los Angeles Clippers í NBA körfuboltanum og hafði það loksins í gegn eftir verkfallsaðgerðir og annað vesen.

Nú er Harden búinn að spila fjóra leiki með LA Clippers og liðið hefur enn ekki náð að vinna leik með hann innanborðs.

Allt aðra sögu er að segja af liði 76ers sem hefur unnið átta af níu leikjum sínum frá því að félagið losaði sig við Harden.

76ers er með besta árangurinn í NBA deildinni á meðan Clippers er aðeins í tólfa sæti í Vesturdeildinni. Öll tölfræði sýnir líka að Philadelphia varð að betra liði eftir breytingarnar.

Það þarf ekki að koma mikið á óvart en að Clippers er með verstu varnartölfræðina síðan að Harden fór að spila með liðinu en sömu sögu var að segja af 76ers liðinu á síðustu leiktíð þegar hann lék þar.

Án Harden er Sixers liðið aftur á móti með eitt af fimm bestu varnarliðum NBA deildarinnar.

Philly liðið er líka að bjóða upp á eina af fimm bestu sóknarliðum deildarinnar á meðan Clippers hefur bara skorað 104,3 stig í leik með Harden sem er eitt það versta í deildinni.

Í þessum fjórum tapleikjum er Harden bara með 13,5 stig og 4,3 stoðsendingar að meðaltali. Fjarvera hans hefur líka haft eitt í för með sér.

Tyrese Maxey hefur á móti blómstrað hjá 76ers liðinu eftir brotthvarf Harden. Maxey skoraði fimmtíu stig í gær og er með 28,6 stig í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×