Daði byrjaði tímabilið með Val og spilaði síðast fimmtán mínútur með Hlíðarendaliðinu í tapleik á móti Stjörnunni í síðustu viku.
Daði er með 4,6 stig og 1,4 stoðsendingar að meðaltali á 14,8 mínútum í leik. Hann spilaði í meira en tuttugu mínútur í leikjum á móti Hamri (6 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar) og Keflavík (7 stig og 3 stoðsendingar).
Daði er Haukafólki ekki ókunnugur en hann spilaði með liðinu tímabilið 2018-2019. Þá var hann með 9,4 stig, 3,9 fráköst og 3,8 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Eftir það tók hann sér frí frá körfuknattleik og snéri sér að spretthlaupi þar sem hann náði í tvígang að verða Íslandsmeistari.
Daði snéri til baka fyrir síðustu leiktíð og samdi þá við Val. Hann ákvað að breyta aðeins til eftir að hafa hafið tímabilið með Hlíðarendapiltum.
Daði hefur alls leikið 147 leiki í efstu deild fyrir fjögur félög en hann er alinn upp í Stjörnunni og lék í rúm tvö tímabil með Keflavík.