Nýjustu GPS gögn sýna enga hröðun á landrisi í kjölfar skjálftavirkninnar í dag og það gera gervihnattagögn ekki heldur. Engin merki sjást heldur um gosóróa. Bæði GPS gögn og gervitunglamyndir staðfesta þó að kvika haldi áfram að flæða í innskotið sem myndast hefur undir svæðinu norðvestur af Þorbirni á um kílómetra dýpi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni.
Væri kvika að brjóta sér leið upp á yfirborðið sæist það í grynnkandi skjálftavirkni og vaxandi óróa, sem í þessu samhengi merkir afar tíða og litla skjálfta. Samhliða því ætti að mælast aflögun, eða gliðnun, á yfirborði á GPS mælum.
Veðurstofan mun halda áfram að vakta svæðið og farið var yfir stöðuna á fundi með Almannavörnum fyrr í kvöld. Gera má ráð fyrir áframhaldandi skjálftavirkni og þá má einnig gera ráð fyrir gikkskjálftavirkni á næstu dögum vegna kvikuinnskotsins. Fólk er hvatt til að fara varlega nærri fjallshlíðum á svæðinu af hættu við grjóthrun.