Auk þess að vera valin nýliði ársins þá komst hún einnig í annað úrvalsliðið.
Ólöf varð markahæsti leikmaður Harvard-háskólaliðsins með sjö mörk í fimmtán leikjum en hún gaf einnig tvær stoðsendingar. Hún endaði næstmarkahæst í allri Ivy League.
Ólöf yfirgaf Þrótt á miðju tímabili til að hefja sína fyrstu önn í Harvard en þar er hún á fótboltastyrk.
Hún hafði skorað í sínum fyrsta A-landsleik síðasta vor og hafði raðað inn mörkum á undirbúningstímabilinu. Það gekk ekki eins vel hjá henni að skora í Bestu deildinni þar sem meiðsli settu líka strik í reikninginn.
Ólöf fann aftur á móti skotskóna þegar hún kom út til Cambridge í Massachusetts fylki.
Ivy League háskólar hafa á sér það orð að vera með bestu háskólum Bandaríkjanna en þeir eru líka með elstu háskólum í Bandaríkjunum. Harvard-háskóli er sá elsti en hann var stofnaður 1636. Skólarnir eru allir einkareknir og eru með auðugustu menntastofnunum heims.