Í hugleiðingum veðurfræðings segir að það verði stöku skúrir eða él á austanverðu landinu en yfirleitt bjart vestantil. Reikna megi með frosti á bilinu núll til átta í morgunsárið en frostlaust sunnanlands. Yfir daginn verður hiti yfirleitt núll til fimm stig.
„Á morgun verður frekar ákveðin norðaustanátt, 10-18 m/s, hvassast suðaustantil. Dálitlar skúrir eða él um norðan- og austanvert landið en áfram léttskýjað á suðvesturhorninu. Hiti breytist lítið.
Á föstudag og um helgina er útlit fyrir svipað veður. Norðaustlægar áttir, lítilsháttar snjókoma eða rigning norðan- og austantil en þurrt að kalla suðvestanlands. Hiti yfirleitt um eða yfir frostmarki að deginum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Norðaustan 8-13 m/s, en 13-18 suðaustantil á landinu. Dálitlar skúrir eða él, en bjartviðri á Suður- og Vesturlandi. Hiti um frostmark fyrir norðan en allt að 5 stigum sunnantil.
Á föstudag og laugardag: Norðaustan 5-13 og rigning eða snjókoma með köflum, en þurrt og bjart sunnan- og vestanlands. Hiti breytist lítið.
Á sunnudag: Norðanátt, víða 8-13 m/s. Dálítil él norðan- og austanlands, en bjartviðri sunnan heiða. Hiti kringum frostmark.
Á mánudag: Norðlæg eða breytileg átt. Stöku skúrir eða él á Suður- og Vesturlandi með hita í kringum frostmark. Birtir upp norðan- og austanlands, frost 2 til 7 stig þar.
Á þriðjudag: Útlit fyrir breytilega átt. Stöku él á víð og dreif, einkum fyrir norðan, og hiti um eða undir frostmarki.