Sjúkraflutningar á Suðurlandi tilheyra starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Sex starfsstöðvar eru reknar eða frá Selfossi austur á Höfn í Hornafirði. 13 sjúkrabílar eru dreifðir um starfssvæðið. 25 sjúkraflutningamenn ganga vaktir allan sólarhringinn á starfsstöðinni á Selfossi, auk tveggja manna í dagvinnu og auk þess er einn sjúkraflutningamaður við störf alla daga ársins á Þingvöllum.
Það er mikið álag á sjúkraflutningamönnum á Suðurlandi, ekki síst vegna mikillar fjölgunar ferðamanna eins og í uppsveitum Árnessýslu eins og Hermann Marinó Maggýjarson, yfirmaður sjúkraflutninga hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands talaði um á fjölmennum fundi um málefni heilsugæslunnar í Laugarási í Bláskógabyggð á dögunum.

„Það er minn draumur að efla bráðaviðbragð hér í uppsveitunum þar sem lífið skiptir máli, fyrstu viðbrögð. Vegalengdirnar skipta okkur miklu meira máli þegar kemur að bráðaviðbragði, að komast, sem allra, allra fyrst til þeirra, sem eru slasaðir eða veikir,“ sagði Hermann Marinó.
Og Willum Þór, heilbrigðisráðherra hrósaði Hermanni og hans fólki í sjúkraflutningnum á fundinum.
„Þið erum með alveg rosalega öflugt flott lið hér í flutningnum. Bara hvernig þið fóruð í gegnum sumarið með viðbótar bílinn, þetta er alveg einstaklega flottur hópur og þið megið vera stolt af því.“