Fólk er varað við að ferðast milli landshluta að óþörfu og hvatt til að ganga frá lausamunum til að forðast foktjón.
Á vef Veðurstofunnar segir að 970 mb lægð sé nú stödd norðaustur af Hvarfi og önnur 1030 mb hæð yfir Skandinavíu. Saman beini þessi kerfi til okkar tungu af hlýju lofti úr suðaustri. „Það eru þéttar þrýstilínur yfir landinu og hvassviðri eða stormur á Suður- og Vesturlandi í dag. Í lægðinni er kaldur kjarni, en tungan er eins og áður sagði hlý og á mörkum loftmassanna eru veðraskil og úrkoma myndast. Það má því búast við vætusömu veðri, þó hann hangi lengst af þurr norðanlands,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings. Má gera ráð fyrir hita á bilinu sex til tólf stig.
Búið er að fella niður eða fresta flugferðum til og frá Keflavíkurflugvelli fram eftir degi. Engin umferð er áætluð um flugvöllinn fyrr en eftir klukkan tvö í dag.
Þá hefur ýmsu innanlandsflugi, þar á meðal milli Akureyrar, Egilstaða, Ísafjarðar annars vegar og Reykjavíkur hins vegar verið aflýst.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag: Suðaustan 13-20 m/s og rigning, en að mestu þurrt norðanlands. Heldur hægari um kvöldið, hiti 5 til 10 stig.
Á laugardag: Suðaustan og austan 5-13, skýjað með köflum og dálitlar skúrir sunnantil. Hiti 2 til 8 stig.
Á sunnudag: Fremur hæg breytileg átt og lítilsháttar rigning eða slydda, en úrkomulítið á Norðaustur- og Austurlandi. Hiti 1 til 6 stig.
Á mánudag: Suðvestlæg átt og stöku skúrir eða él, en léttskýjað um landið austanvert. Hiti 1 til 6 stig yfir daginn.
Á þriðjudag: Sunnanátt og stöku skúrir, en bjartviðri austanlands. Hiti breytist lítið.
Á miðvikudag: Útlit fyrir suðaustanátt með lítilsháttar vætu á Suður- og Vesturlandi.