Fyrri leik liðanna á Spáni lauk með 2-1 sigri Real og því möguleikar Vålerenga á að komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar svo sannarlega til staðar þegar flautað var til leiks í kvöld.
Ingibjörg Sigurðardóttir var í byrjunarliði Vålerenga og bar auk þess fyrirliðabandið. Real Madrid náði forystunni á 29. mínútu með marki frá Sandie Toletti og Naomie Feller bætti örðu marki við um miðjan síðari hálfleikinn.
Í uppbótartíma skoraði Athenea Del Castillo síðan þriðja mark Real Madrid og gulltryggði sigur liðsins. Real Madrid vinnur því einvígið 5-1 samanlagt og fer áfram í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
Fimm Íslendingalið verða með í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í vetur. FC Rosengård með Guðrúnu Arnardóttur, Bayern Munchen þar sem Glódís Perla Viggósdóttir og Cecilía Rán Rúnarsdóttir leika, PSG þar sem Berglind Björg Þorvaldsdóttir er á samningi, Svava Rós Guðmundsdóttir hjá Benfica og þá er Natasha Anasi á mála hjá Brann.