Varnarlínan helst óbreytt, Rúnar Alex Rúnarsson stendur vaktina í markinu með Guðlaug Victor og fyrirliðann Sverri Inga sem miðvarðapar fyrir framan. Alfons Sampsted heldur hlutverki sínu í hægri bakverðinum og Kolbeinn Finnsson stillir sér upp vinstra megin.
Íslenska liðið skartar þriggja manna miðju, í tapinu gegn Lúxemborg í síðasta mánuði var stillt upp í fjögurra manna miðju. Miðjan er að þessu sinni skipuð þeim Willumi Willumssyni, Arnóri Ingva Traustasyni og Hákoni Arnari Haraldssyni.
Jóhann Berg, sem hefur borið fyrirliðabandið í síðustu leikjum er frá vegna meiðsla.
Orri Steinn Óskarsson leiðir línuna fremstur manna, Ísak Bergmann verður hægra megin og Arnór Sigurðsson úti á vinstri vængnum.
Lúxemborg gerir þrjár breytingar frá því í 3-1 sigrinum gegn Íslandi. Dirk Clarkson kemur inn í þriggja manna varnarlínu. Markaskorarinn Yvandro Sanches verður ekki með í kvöld, inn í hans stað kemur Eldin Dzogovic. Framherjinn Vincent Thill kemur svo inn fyrir Mathias Olesen sem fór meiddur af velli síðast.
Gylfi Þór Sigurðsson er að sjálfsögðu mættur aftur í landsliðshópinn eftir langa fjarveru, hann hefur verið að glíma við smávægileg meiðsli upp á síðkastið en spilaði þrjátíu mínútur gegn Silkeborg síðustu helgi og það má fastlega gera ráð fyrir því að hann komi eitthvað við sögu í kvöld.
Framundan er algjör skyldusigur ætli Ísland að blanda sér í baráttuna um umspilssæti í riðlinum fyrir EM 2024.
Leikurinn hefst kl. 18:45 og verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport.