Lífið

Vatna­skóga­strákum barst óvæntur risa styrkur

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Nói ásámt frændum sínum þeim Kristjáni Daða Runólfssyni og Örnólfi Sveinssyni. Þeir gengu 55 kílómetra leið frá Reykjavík í Vatnaskóg í sumar.
Nói ásámt frændum sínum þeim Kristjáni Daða Runólfssyni og Örnólfi Sveinssyni. Þeir gengu 55 kílómetra leið frá Reykjavík í Vatnaskóg í sumar.

Nóa Pétri Ás­dísar­syni Guðna­syni og fé­lögum sem ætla sér að safna 36,5 milljónum króna í ár fyrir sumar­búðir KFUM og KFUK í Vatna­skógi, í til­efni af hundrað ára af­mæli þeirra, barst heldur betur ó­væntur liðs­styrkur. Tveir skógar­menn hafa heitið því að jafna hverja einustu gjöf upp að fimm milljónum króna nú í októ­ber og þar til 3. nóvember næst­komandi.

„Þetta er með betri fréttum sem ég hef fengið,“ segir Nói Pétur, eðli málsins sam­kvæmt kampa­kátur, í sam­tali við Vísi. Eins og fram hefur komið fór hinn 17 ára gamli nemandi af stað með metnaðar­fulla söfnun til handa Vatna­skógi í til­efni af hundrað ára af­mæli þeirra.

Það vakti lands­at­hygli í ágúst þegar Nói gekk úr Reykja­vík í Vatna­skóg, 55 kíló­metra leið, á­samt frændum sínum þeim Kristjáni Daða Runólfs­syni og Örn­ólfi Sveins­syni til styrktar söfnuninni. Um var að ræða sömu leið og fyrst var farin í sumar­búðirnar árið 1923. Nú þegar hafa safnast 6,1 milljón króna en mark­miðið hefur verið að safna 1000 krónum fyrir hvern dag í hundrað ára sögu Vatna­skógar.

Velunnarar Vatna­skógar hafa heitið því að jafna allar þær gjafir sem koma í söfnunina fram að 2. nóvember, allt að fimm milljónum króna. „Fólk getur þannig tvö­faldað hverja krónu sem þau setja í söfnunina, sem er alveg magnað! Feðgar sem hafa oft­sinnis notið góðra stunda í Vatna­skógi vildu láta gott af sér leiða og vonandi hvetja fleiri til að gera það líka,“ segir Nói.

Strákarnir vilja tryggja framtíð Vatnaskógar. Það sé staður sem sé engum líkur hér á landi.

„Við erum með stiku á heima­síðunni söfnunarinnar, www.vatna­skogur100.is sem sýnir hvert við erum komin að hverju sinni. Árin 1923 og fram til 1940 eru klár. Núna fyrr í septem­ber bárust okkur svo þessar frá­bæru fréttir, að jafna ætti allar gjafir út októ­ber!“ segir Nói himinlifandi.

Málið er í raun ein­falt, ef ein­stak­lingur eða fyrir­tæki á­kveður að gefa 1000 krónur, koma þessir velunnarar með 1000 á móti, þannig tvö­faldast hver þúsund­kall Vatna­skógi og hug­sjónunum og krafti staðarins í hag, ef gjöfin er 100.000 krónur koma velunnarnir með aðrar 100.000 krónur á móti og svo fram­vegis. Feðgarnir hafa tekið frá 5 milljónir í verk­efnið. Gjöfin gæti því orðið 10 milljónir!“

Nói segist ekki enn vera farinn að þora að láta sig dreyma um það hvernig hann ætli að halda upp á það í lok árs ef mark­miðið náist. Hann segir verk­efnið snúast um veg­ferðina frekar en á­fanga­staðinn.

„Við gerum þetta vegna þess að við elskum Vatna­skóg. Það gera það líka svo margir og vilja að staðurinn verði á­fram í fullu fjöri eftir hundrað ár. Þess vegna trúi ég því að þetta muni nást.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.