Menning

Nýsleginn formaður situr fyrir svörum

Árni Sæberg skrifar
Gísli Snær situr fyrir svörum í Norræna húsinu á morgun.
Gísli Snær situr fyrir svörum í Norræna húsinu á morgun. Kvikmyndamiðstöð Íslands/Vísir/Vilhelm

Gísli Snær Erlingsson, sem er nýtekinn við sem formaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, mun sitja fyrir svörum og ræða framtíðarsýn stofnunarinnar á opnum fundi með kvikmyndagerðarfólki á morgun, mánudag, klukkan 16 í Norræna húsinu.

Þetta segir í tilkynningu frá RIFF, en svokallaðir bransadagar hátíðarinnar hefjast á morgun. Þar segir að formenn fagfélaga í kvikmyndagerð muni stýra umræðunum. Þar á meðal séu Anton Máni Svansson formaður Samtaka íslenskra kvikmyndagerðarmanna, Ragnar Bragason, formaður Samtaka kvikmyndaleikstjóra, Steingrímur Dúi Másson formaður Félags kvikmyndagerðarmanna og María Reyndal fyrir hönd Félags handritshöfunda.

Í tilkynningu segir að bransadagar RIFF fari fram í vikunni og að þar fari fram umræður um spennandi og áríðandi málefni í kvikmyndagerð, spjallað verði við heiðursgesti og RIFFspjallið verði á sínum stað, sem sé tileinkað ungum og upprennandi kvikmyndagerðarmönnum.

Málþing um kvikmyndir um umhverfismál

Þá segir að Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra, muni veita Óskarsverðlaunahafanum og kvikmyndaleikstjóranum Luc Jacquet umhverfisverðlaun RIFF, Græna lundann, við hátíðlega athöfn á þriðjudag klukkan 16 í Ráðhúsi Reykjavíkur. 

Einnig fari fram málþing um mikilvægi kvikmynda sem fjalla um umhverfismál og líffræðilegan fjölbreytileika.

Stjórnandi málþings verði Sverrir Norland, rithöfundur, og þátttakendur Andri Snær Magnason, rithöfundur, Unnur Björnsdóttir, meðlimur í ungum umhverfissinnum, Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Sjálfbærnistofnunar Háskóla Íslands, og Snorri Sigurðsson, sviðstjóri náttúruverndar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.