Enski boltinn

Pep ósáttur með Rodri: „Þarf að hafa stjórn á sér“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Morgan Gibbs-White heldur um háls sér á meðan Rodri útskýrir málin fyrir honum.
Morgan Gibbs-White heldur um háls sér á meðan Rodri útskýrir málin fyrir honum. Vísir/Getty

Manchester City vann 2-0 sigur á Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni í dag. Pep Guardiola var ekki ánægður með einn sinn besta leikmann þegar hann mætti í viðtöl eftir leik.

Lærisveinar Pep Guardiola virtust ætla að valta yfir Nottingham Forest þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í dag. City var komið í 2-0 forystu snemma leiks með mörkum Phil Foden og Erling Haaland en rautt spjald á Rodri setti liðið í vandræði.

Spánverjinn fékk rauða spjaldið fyrir að taka Morgan Gibbs-White hálstaki og hikaði dómarinn Anthony Taylor ekki í eina sekúndu áður en hann lyfti rauða spjaldinu.

Spjaldið verður til þess að Rodri missir af næstu þremur leikjum liðsins. Þar á meðal er toppleikur við Arsenal í byrjun október. Ólíklegt er að City áfrýji spjaldinu.

„Vonandi lærir Rodri af þessu,“ sagði Pep Guardiola eftir leik og greindi einnig frá því að Rodri hefði beðist afsökunar á hegðun sinni.

„Rodri þarf að hafa stjórn á sér og sínum tilfinningum. Það er það sem hann verður að gera.“

Hann sagði að hann hefði sagt við leikmenn sína í hálfleik að fara varlega. Því miður hafi það ekki tekist.

„Já, ég er ekki ánægður að spila bara með 10 leikmenn því það er okkur að kenna,“ sagði Guardiola aðspurður hvort Rodri hefði brugðist honum.

Rodri missir af leik City gegn Newcastle í deildabikarnum í vikunni sem og leikjum gegn Wolves á laugardag og Arsenal þann 8. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×