Umfjöllun og viðtal: KR - Valur 2-2 | Víkingar Íslandsmeistarar eftir jafntefli í Vesturbænum Hinrik Wöhler skrifar 24. september 2023 16:00 vísir/hulda margrét Víkingur er Íslandsmeistari í knattspyrnu karla árið 2023. Þetta varð ljóst eftir að KR og Valur gerðu jafntefli í Vesturbænum í dag. Valsmenn geta því ekki lengur náð Víkingum að stigum. Fyrir leik var mínútu þögn til að heiðra minningu Bjarna Felixsonar sem lést fyrr í þessum mánuði en hann spilaði með Vesturbæjarliðinu á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar og lýsti síðar leikjum félagsins af sinni alkunnu snilld. KR byrjaði leikinn að krafti og átti Ægir Jarl Jónasson ágæta tilraun strax á fyrstu mínútu sem fór rétt framhjá markinu. Heimamenn héldu áfram að sækja og fengu nokkur ágætis færi á fyrstu tuttugu mínútum leikins. Það var síðan á 25. mínútu sem Valsmenn komust yfir og það var gegn gangi leiksins. Birkir Már Sævarsson kom með sendingu frá hægri vængnum sem fór í gegnum allan pakkann í vítateignum og endaði hjá Orra Hrafni Kjartanssyni. Orri tók laglega gabbhreyfingu og afgreiddi boltann snyrtilega í netið og Valsmenn komnir yfir. Tíu mínútum eftir mark Vals náðu gestirnir að koma boltanum í netið á ný. Markið fékk þó ekki að standa þar sem rangstæða var dæmd í aðdraganda marksins. Rétt áður vildu Valsmenn vítaspyrnu eftir að Kristinn Freyr Sigurðsson féll í teignum eftir tæklingu frá Kennie Chopart. Benoný Breki Andrésson fékk besta færi heimamanna undir lok fyrri hálfleiks þegar hann var einn á auðum sjó í markteignum en markvörður Vals, Sveinn Sigurður Jóhannesson, gerði virkilega vel og kom í veg fyrir að boltinn endaði í netinu. Valsmenn fóru með eins marks forystu inn til búningsherbergja í hálfleik. Eftir fimm mínútna leik í síðari hálfleik fékk Adam Ægir Pálsson upplagt tækifæri til að tvöfalda forystu gestanna þegar hann var aleinn inn í vítateignum en skalli hans endaði í hliðarnetinu og KR-ingar sluppu með skrekkinn. Það leið ekki að löngu þangað til að KR náði að jafna leikinn en það var sóknarmaðurinn ungi Benoný Breki Andrésson sem jafnaði leikinn á 53. mínútu með sínu sjötta marki í deildinni í sumar. Kristinn Jónsson átti lága og hnitmiðaða sendingu á nærsvæðið inn í vítateig og Benoný kláraði færið mjög vel og rak smiðshöggið á sóknina. Það átti þó nóg eftir að gerast í seinni hálfleik og á 73. mínútu kom Patrick Pedersen Valsmönnum yfir eftir snarpa sókn. Tryggi Hrafn Haraldsson kom boltanum á Patrick sem fékk nægan tíma í D-boganum og átti hnitmiðað skot sem endaði í bláhorninu. KR svaraði markinu strax og jafnaði tveimur mínútum síðar. Ægir Jarl Jónasson fiskaði vítaspyrnu eftir að Haukur Páll Sigurðsson setti fótinn fyrir Ægi og Jóhann Ingi Jónsson, dómari leiksins, benti á vítapunktinn. Benoný Breki fékk það hlutverk að taka spyrnuna og honum brást ekki bogalistin og jafnaði leikinn úr spyrnunni. Það komu ekki fleiri mörk í þennan fjöruga leik og jafntefli var niðurstaðan. Úrslitin þýða að Valur á ekki lengur tölfræðilega möguleika að ná efsta sæti deildarinnar og Víkingar geta endanlega fagnað Íslandsmeistaratitlinum. Af hverju endaði leikurinn með jafntefli? Leikurinn var opinn og bæði lið fengu góð marktækifæri. Leikurinn hefði getað endað báðum megin og er jafntefli líklegast sanngjörn niðurstaða. Valsmenn voru afar ósáttir með vítaspyrnuna sem KR fékk í síðari hálfleik en á heildina litið mættust tvö jöfn lið á Meistaravöllum í dag. Hverjir stóðu upp úr? Benoný Breki Andrésson skoraði bæði mörk KR-inga og var líflegur í framlínu KR-inga. Markvörður Vals, Sveinn Sigurður Jóhannesson, var oft vel á verði og skilaði sínu dagsverki vel. Sérstaklega í fyrri hálfleik en KR-ingar fengu þó nokkur fín marktækifæri en náðu ekki að koma knettinum framhjá markverðinum. Hvað gekk illa? Heimamenn hefðu líklegast viljað nýta marktækifærin sín betur í fyrri hálfleik og var það gegn gangi leiksins að Valsmenn fóru með 1-0 forystu inn til búningsherbergja í hálfleik. Hvað gerist næst? Valsmenn mæta Breiðablik næsta fimmtudag á Origo-vellinum og á meðan fara KR-ingar í Garðabæinn þar sem þeir mæta Stjörnunni í mikilvægum leik upp á Evrópusæti á næsta tímabili. Rúnar: „Við erum með alltof marga meidda“ Rúnar Kristinsson á hliðarlínunni í leik kvöldsinsVísir/Hulda Margrét Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, segir að hann sættir sig við fenginn hlut í dag þó hann hefði viljað sjá sína menn taka öll stigin á Meistaravöllum í dag. „Fínt stig, hefði viljað öll þrjú. Valsmenn voru góðir og mér finnst við hafa smá tök í seinni hálfleik og við pressuðum þá nokkuð vel og það var óþarfi að fá þetta mark í andlitið þegar við erum búnir að jafna. Við jöfnuðum mjög fljótt aftur og erum að reyna pressa fram, við þurftum að vinna en við sættum okkur við eitt,“ sagði Rúnar eftir leikinn í Vesturbænum í dag. Staðan var 1-0 fyrir Val í hálfleik og sýndu KR-ingar ágætis spilamennsku á köflum í fyrri hálfleik. Rúnar var þó mun sáttari með spilamennskuna og ákefðina í þeim síðari. „Mér fannst við ekki nægilega ákafir í fyrri hálfleik þrátt fyrir að hafa boltann og skapa ágætis færi inn á milli. Nýtingin var ekki góð og mér fannst vanta smá kraft í okkur, stutt frá síðasta leik og mér fannst við eins og díselvél í fyrri hálfleik, menn voru á skokki út um allt, lítið um spretti og hraðaaukningar. Mér fannst það koma aðeins betur í seinni hálfleik, aðeins meiri kraftur og við þurftum að koma sterkir inn og jafna. Mér fannst við spila mun betur í seinni hálfleik en það vantaði það síðasta, að slútta betur. Mörkin þeirra er eitthvað sem maður er alltaf ósáttur með, alltof einfalt finnst mér,“ bætti Rúnar við. Í leikmannahópi KR í dag voru margir minni spámenn, ungir strákar sem hafa ekki komið mikið við sögu á þessu tímabili. Rúnar er vel meðvitaður um það hversu fáliðaðir þeir eru. „Mér finnst að vandamálið hjá okkur séu meiðslin, við erum með Atla Sigurjónsson, Jakob Franz, Kristján Flóka og Stefán Árna fyrir utan hóp. Við erum með alltof marga meidda, þetta er allt leikmenn sem ætti að vera byrjunarliðsmenn hjá okkur en eru ekki í hóp í dag útaf meiðslum og það er að stríða okkur núna. Við spiluðum á miðvikudag erfiðan leik á móti Víking og leikur í dag og svo er aftur leikur á fimmtudag. Á meðan Valsmenn fá örlítið meiri hvíld, fyrir svona fáa leikmenn er þetta álag. Ég ætla ekki að kvarta eða kveina en þegar þú hefur ekki fleiri skiptingar á bekknum heldur en stráka úr 3. flokk sem hafa aldrei tekið þátt í þessu og eiga langt í land og þá er þetta álag á hina,“ sagði Rúnar um meiðslavandræði KR-inga. Næsti leikur er eftir fjóra daga á móti Stjörnunni og er leikurinn afar mikilvægur í baráttunni um Evrópusæti á næsta tímabili. „Við fáum vonandi einhverja inn en við getum misst einhvern í bann og það er alltaf eitthvað en svona er þetta bara. Það er engum um að kenna, kannski þurfum við að líta á það hvernig við æfum eða hversu marga við erum með í leikmannahópnum og jafnvel sleppa að lána svona marga leikmenn til KV, við getum alveg kennt okkur sjálfum um. Við erum enn í baráttu um Evrópu og vissum ef við myndum ná stig á móti Víking og Val að það væri bónusstig en við þurfum að vinna hina leikina,“ sagði Rúnar að lokum. Besta deild karla KR Valur
Víkingur er Íslandsmeistari í knattspyrnu karla árið 2023. Þetta varð ljóst eftir að KR og Valur gerðu jafntefli í Vesturbænum í dag. Valsmenn geta því ekki lengur náð Víkingum að stigum. Fyrir leik var mínútu þögn til að heiðra minningu Bjarna Felixsonar sem lést fyrr í þessum mánuði en hann spilaði með Vesturbæjarliðinu á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar og lýsti síðar leikjum félagsins af sinni alkunnu snilld. KR byrjaði leikinn að krafti og átti Ægir Jarl Jónasson ágæta tilraun strax á fyrstu mínútu sem fór rétt framhjá markinu. Heimamenn héldu áfram að sækja og fengu nokkur ágætis færi á fyrstu tuttugu mínútum leikins. Það var síðan á 25. mínútu sem Valsmenn komust yfir og það var gegn gangi leiksins. Birkir Már Sævarsson kom með sendingu frá hægri vængnum sem fór í gegnum allan pakkann í vítateignum og endaði hjá Orra Hrafni Kjartanssyni. Orri tók laglega gabbhreyfingu og afgreiddi boltann snyrtilega í netið og Valsmenn komnir yfir. Tíu mínútum eftir mark Vals náðu gestirnir að koma boltanum í netið á ný. Markið fékk þó ekki að standa þar sem rangstæða var dæmd í aðdraganda marksins. Rétt áður vildu Valsmenn vítaspyrnu eftir að Kristinn Freyr Sigurðsson féll í teignum eftir tæklingu frá Kennie Chopart. Benoný Breki Andrésson fékk besta færi heimamanna undir lok fyrri hálfleiks þegar hann var einn á auðum sjó í markteignum en markvörður Vals, Sveinn Sigurður Jóhannesson, gerði virkilega vel og kom í veg fyrir að boltinn endaði í netinu. Valsmenn fóru með eins marks forystu inn til búningsherbergja í hálfleik. Eftir fimm mínútna leik í síðari hálfleik fékk Adam Ægir Pálsson upplagt tækifæri til að tvöfalda forystu gestanna þegar hann var aleinn inn í vítateignum en skalli hans endaði í hliðarnetinu og KR-ingar sluppu með skrekkinn. Það leið ekki að löngu þangað til að KR náði að jafna leikinn en það var sóknarmaðurinn ungi Benoný Breki Andrésson sem jafnaði leikinn á 53. mínútu með sínu sjötta marki í deildinni í sumar. Kristinn Jónsson átti lága og hnitmiðaða sendingu á nærsvæðið inn í vítateig og Benoný kláraði færið mjög vel og rak smiðshöggið á sóknina. Það átti þó nóg eftir að gerast í seinni hálfleik og á 73. mínútu kom Patrick Pedersen Valsmönnum yfir eftir snarpa sókn. Tryggi Hrafn Haraldsson kom boltanum á Patrick sem fékk nægan tíma í D-boganum og átti hnitmiðað skot sem endaði í bláhorninu. KR svaraði markinu strax og jafnaði tveimur mínútum síðar. Ægir Jarl Jónasson fiskaði vítaspyrnu eftir að Haukur Páll Sigurðsson setti fótinn fyrir Ægi og Jóhann Ingi Jónsson, dómari leiksins, benti á vítapunktinn. Benoný Breki fékk það hlutverk að taka spyrnuna og honum brást ekki bogalistin og jafnaði leikinn úr spyrnunni. Það komu ekki fleiri mörk í þennan fjöruga leik og jafntefli var niðurstaðan. Úrslitin þýða að Valur á ekki lengur tölfræðilega möguleika að ná efsta sæti deildarinnar og Víkingar geta endanlega fagnað Íslandsmeistaratitlinum. Af hverju endaði leikurinn með jafntefli? Leikurinn var opinn og bæði lið fengu góð marktækifæri. Leikurinn hefði getað endað báðum megin og er jafntefli líklegast sanngjörn niðurstaða. Valsmenn voru afar ósáttir með vítaspyrnuna sem KR fékk í síðari hálfleik en á heildina litið mættust tvö jöfn lið á Meistaravöllum í dag. Hverjir stóðu upp úr? Benoný Breki Andrésson skoraði bæði mörk KR-inga og var líflegur í framlínu KR-inga. Markvörður Vals, Sveinn Sigurður Jóhannesson, var oft vel á verði og skilaði sínu dagsverki vel. Sérstaklega í fyrri hálfleik en KR-ingar fengu þó nokkur fín marktækifæri en náðu ekki að koma knettinum framhjá markverðinum. Hvað gekk illa? Heimamenn hefðu líklegast viljað nýta marktækifærin sín betur í fyrri hálfleik og var það gegn gangi leiksins að Valsmenn fóru með 1-0 forystu inn til búningsherbergja í hálfleik. Hvað gerist næst? Valsmenn mæta Breiðablik næsta fimmtudag á Origo-vellinum og á meðan fara KR-ingar í Garðabæinn þar sem þeir mæta Stjörnunni í mikilvægum leik upp á Evrópusæti á næsta tímabili. Rúnar: „Við erum með alltof marga meidda“ Rúnar Kristinsson á hliðarlínunni í leik kvöldsinsVísir/Hulda Margrét Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, segir að hann sættir sig við fenginn hlut í dag þó hann hefði viljað sjá sína menn taka öll stigin á Meistaravöllum í dag. „Fínt stig, hefði viljað öll þrjú. Valsmenn voru góðir og mér finnst við hafa smá tök í seinni hálfleik og við pressuðum þá nokkuð vel og það var óþarfi að fá þetta mark í andlitið þegar við erum búnir að jafna. Við jöfnuðum mjög fljótt aftur og erum að reyna pressa fram, við þurftum að vinna en við sættum okkur við eitt,“ sagði Rúnar eftir leikinn í Vesturbænum í dag. Staðan var 1-0 fyrir Val í hálfleik og sýndu KR-ingar ágætis spilamennsku á köflum í fyrri hálfleik. Rúnar var þó mun sáttari með spilamennskuna og ákefðina í þeim síðari. „Mér fannst við ekki nægilega ákafir í fyrri hálfleik þrátt fyrir að hafa boltann og skapa ágætis færi inn á milli. Nýtingin var ekki góð og mér fannst vanta smá kraft í okkur, stutt frá síðasta leik og mér fannst við eins og díselvél í fyrri hálfleik, menn voru á skokki út um allt, lítið um spretti og hraðaaukningar. Mér fannst það koma aðeins betur í seinni hálfleik, aðeins meiri kraftur og við þurftum að koma sterkir inn og jafna. Mér fannst við spila mun betur í seinni hálfleik en það vantaði það síðasta, að slútta betur. Mörkin þeirra er eitthvað sem maður er alltaf ósáttur með, alltof einfalt finnst mér,“ bætti Rúnar við. Í leikmannahópi KR í dag voru margir minni spámenn, ungir strákar sem hafa ekki komið mikið við sögu á þessu tímabili. Rúnar er vel meðvitaður um það hversu fáliðaðir þeir eru. „Mér finnst að vandamálið hjá okkur séu meiðslin, við erum með Atla Sigurjónsson, Jakob Franz, Kristján Flóka og Stefán Árna fyrir utan hóp. Við erum með alltof marga meidda, þetta er allt leikmenn sem ætti að vera byrjunarliðsmenn hjá okkur en eru ekki í hóp í dag útaf meiðslum og það er að stríða okkur núna. Við spiluðum á miðvikudag erfiðan leik á móti Víking og leikur í dag og svo er aftur leikur á fimmtudag. Á meðan Valsmenn fá örlítið meiri hvíld, fyrir svona fáa leikmenn er þetta álag. Ég ætla ekki að kvarta eða kveina en þegar þú hefur ekki fleiri skiptingar á bekknum heldur en stráka úr 3. flokk sem hafa aldrei tekið þátt í þessu og eiga langt í land og þá er þetta álag á hina,“ sagði Rúnar um meiðslavandræði KR-inga. Næsti leikur er eftir fjóra daga á móti Stjörnunni og er leikurinn afar mikilvægur í baráttunni um Evrópusæti á næsta tímabili. „Við fáum vonandi einhverja inn en við getum misst einhvern í bann og það er alltaf eitthvað en svona er þetta bara. Það er engum um að kenna, kannski þurfum við að líta á það hvernig við æfum eða hversu marga við erum með í leikmannahópnum og jafnvel sleppa að lána svona marga leikmenn til KV, við getum alveg kennt okkur sjálfum um. Við erum enn í baráttu um Evrópu og vissum ef við myndum ná stig á móti Víking og Val að það væri bónusstig en við þurfum að vinna hina leikina,“ sagði Rúnar að lokum.
Leik lokið: Valur - Malaga Costa Del Sol 31-26| Valskonur áfram eftir frábæra frammistöðu Handbolti
Leik lokið: Valur - Malaga Costa Del Sol 31-26| Valskonur áfram eftir frábæra frammistöðu Handbolti