Fótbolti

„Hugsa að litla ég hefði verið ótrú­lega stolt af þessu“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir er fyrirliði hjá einu stærsta íþróttaliði heims.
Glódís Perla Viggósdóttir er fyrirliði hjá einu stærsta íþróttaliði heims. vísir/getty/bayern München

Glódís Perla Viggósdóttir segist vera mjög upp með sér hvernig Bayern München kynnti nýjan samning hennar við félagið.

Í fyrradag var greint frá því að Glódís, sem er nýskipaður fyrirliði Bayern, hefði skrifað undir nýjan samning við félagið til 2026. 

Bayern lagði mikið í kynningu á þessum tíðindum. Glódís var áberandi á samfélagsmiðlum Bayern og í búð félagsins í München var flennistór mynd af íslenska landsliðsfyrirliðanum.

Á blaðamannafundi fyrir leik Íslands og Wales í Þjóðadeildinni spurði Svava Kristín Gretarsdóttir Glódísi út í það hversu mikið púður Bayern hefði lagt í að kynna nýja samninginn hennar.

„Þetta kom mér á óvart. Ég bjóst ekki við þessu. Þetta var svolítið gæsa­húðar­augna­blik og ég hugsa að litla ég hefði verið ótrú­lega stolt af þessu, að þau væru að gera þetta, ekki bara fyr­ir mig held­ur fyr­ir kvenna­fót­bolta yfirhöfuð, að þau séu að setja þenn­an metnað í að kynna leik­menn­ina sína. Það fær fólk á völl­inn og býr til áhuga og um­tal, allt sem við vilj­um,“ sagði Glódís.

Klippa: Glódís um kynningu Bayern

Glódís og stöllur hennar í Bayern hófu titilvörn sína með því að gera 2-2 jafntefli við Freiburg á föstudaginn.

Leikur Íslands og Wales hefst klukkan 18:00 í kvöld og verður í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir

Fyrir­liðinn Gló­dís Perla á­berandi í München

Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, var á dögunum kynnt til leiks sem fyrirliði þýska stórveldisins Bayern München. Þá framlengdi hún samning sinn við félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×