Enski boltinn

Sch­meichel ekki hrifinn af hug­mynda­fræði Arteta þegar kemur að mark­vörðum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Peter Schmeichel varð fimm sinnum Englandsmeistari, þrívegis enskur bikarmeistari og einu sinni Evrópumeistari með Man Utd.
Peter Schmeichel varð fimm sinnum Englandsmeistari, þrívegis enskur bikarmeistari og einu sinni Evrópumeistari með Man Utd. Vísir/Getty Images

Peter Schmeichel, margfaldur Englandsmeistari með Manchester United og Evrópumeistari með Danmörku, er ekki hrifinn af uppátæki Mikel Arteta, þjálfara Arsenal. Hann vill deila spilatíma markvarða sinna og jafnvel skipta um markvörð í miðjum leik þó ekkert ami að þeim sem er inn á.

Eftir sigur Arsenal á Everton í ensku úrvalsdeildinni um liðna helgi var Arteta spurður í stöðu mála er kemur að markvörðum liðsins en David Raya spilaði leikinn í stað Aaron Ramsdale. Sá síðarnefndi hefur verið aðalmarkvörður Arsenal frá 2021 en Raya gekk í raðir félagsins á láni frá Brentford í sumar.

Spurður í markverðina sína tvö sagðist Arteta stöðuna eins og allar aðrar á vellinum, og þar deili menn spilatímanum sín á milli. Oftar en ekki gera þjálfarar taktískar breytingar og virðist sem Arteta ætli að gera það með markverðina sína í vetur. Þessu er Peter Schmeichel ekki par hrifinn af.

„Ég skil ekki hvernig þjálfari getur komist að þeirri niðurstöðu að það sé frábært að hafa samkeppni um treyju númer eitt. Markmannsstaðan, hún er mjög næm. Þú getur ekki skapað neitt upp á eigin spýtur, þú þarft að bíða eftir að hlutir gerist,“ sagði Schmeichel í viðtali við BBC 5 Live í Bretlandi.

„Þú ert nú að biðja markvörðinn þinn um að sýna og sanna að hann sé betri en hinn markvörður liðsins. Það þýðir að nú þarf markvörðurinn að fara og gera hluti, sem þjálfari þá viltu það ekki.“

„Þetta er eina staðan á vellinum sem þú vilt stöðugleika og öryggi í. Þegar þú ert með samkeppni þá spilar markvörðurinn leiki fyrir sjálfan sig og fyrir stöðuna.“

„Ég skil það ekki. Það sem gerist er að þetta býr til óöryggi hjá báðum markvörðum. Á sama tíma ertu mögulega að búa til slæmt andrúmsloft í búningsklefanum því þetta er hrein og bein samkeppni milli tveggja manna þar sem annar mun spila og hinn mun sitja á bekknum.“

„Þeir þurfa að vita að ef hlutirnir misheppnast, sem þeir gera endrum og eins, að þjálfarinn muni bara segja þeim að það sé allt í lagi og að þeir séu enn aðalmarkvörður liðsins. Sem markvörður þarftu þetta sjálfstraust. Ef þú hefur það ekki þá getur þú ertu ekki upp á þitt besta fyrir liðið,“ sagði Schmeichel að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×