Enski boltinn

Vandræði United aukast enn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aaron Wan-Bissaka verður frá keppni í allt að tvo mánuði.
Aaron Wan-Bissaka verður frá keppni í allt að tvo mánuði. getty/Michael Regan

Ekkert lát virðist vera á erfiðleikum Manchester United. Nú hefur enn einn leikmaðurinn bæst á meiðslalistann.

Aaron Wan-Bissaka meiddist aftan á læri í tapinu fyrir Brighton, 1-3, á laugardaginn og verður væntanlega frá keppni næstu tvo mánuðina. The Athletic greinir frá.

Fyrir á meiðslalista United eru Raphaël Varane, Mason Mount, Sofyan Amrabat, Tyrell Malacia og Luke Shaw. Þá er Antony utan hóps vegna ásakana um heimilisofbeldi og Jadon Sancho í frystinum.

Wan-Bissaka var veikur í aðdraganda leiksins gegn Brighton og var ekki í byrjunarliði United. Hann kom inn á þegar fimm mínútur voru eftir og meiddist þá aftan í læri.

Wan-Bissaka átti ekki upp á pallborðið hjá Erik ten Hag fyrst eftir að Hollendingurinn tók við United en vann sig svo inn í byrjunarliðið. Hann spilaði 34 leiki í öllum keppnum á síðasta tímabili. Alls hefur Wan-Bissaka leikið 165 leiki fyrir United og skorað tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×