Það verður skýjað með köflum og stöku skúrir en þurrt að kalla norðaustanlands.
Á vef Veðurstofunnar segir að gert sé ráð fyrir að hiti verði á bilinu níu til fimmtán stig í dag.
„Á morgun verður suðlæg eða breytileg átt 3-8 og bjart með köflum en stöku skúrir á víð og dreif. Hiti breytist lítið.
Seint á föstudag er svo von á nokkuð djúpri lægð og henni mun fylgja hvassviðri og stormur og rigning, jafnvel talsverð á köflum. Næstu daga er því kjörið að huga að öllum lausamunum í næsta nágrenni og koma þeim í skjól,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings, en verst verður veðrið sunnan og vestantil.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Hægviðri, en suðaustan 5-10 m/s með suðvesturströndinni. Smá skúrir á víð og dreif, en að mestu þurrt norðaustanlands. Hiti 9 til 15 stig.
Á föstudag: Vaxandi suðaustanátt, 15-20 með rigningu síðdegis, en hægara og þurrt norðaustantil. Hiti 10 til 16 stig. Bætir í vind og úrkomu seint um kvöldið.
Á laugardag: Sunnan og suðvestan 13-20 með rigningu, talsverðri á köflum. Skúrir seinnipartinn, en styttir upp norðaustantil. Hiti 12 til 17 stig yfir daginn.
Á sunnudag: Ákveðin sunnanátt með rigningu víða um land, en þurrt að kalla fyrir norðan. Dregur úr úrkomu um kvöldið. Hiti 10 til 16 stig.
Á mánudag: Suðvestanátt og skúrir, en þurrt að mestu norðanlands. Hiti 9 til 14 stig.
Á þriðjudag: Útlit fyrir suðvestlæga átt. Skýjað með lítilsháttar vætu vestanlands en léttskýjað fyrir austan. Hiti breytist lítið.