Anderson Talisca kom Al-Nassr yfir strax á 11. mínútu leiksins áður en Yahya Alghassani jafnaði metin fyri Al-Ahli sjö mínútum síðar og sá til þess að staðan var jöfn í hálfleik, 1-1.
Alghassani skoraði svo annað mark sitt á fyrstu mínútu seinni hálfleiks og kom Al-Ahli í forystu.
Þrátt fyrir að skapa sér nóg af færum gekk illa fyrir leikmenn Al-Nassr að koma boltanum í netið og lengi vel leit út fyrir að liðið væri að falla úr leik.
Það var ekki fyrr en á 88. mínútu að liðinu tókst loksins að jafna metin þegar Sultan Al Ghannam skoraði annað mark liðsins. Við það opnuðust allar flóðgáttir og Anderson Talisca kom Al-Nassr yfir með marki á fimmtu mínútu uppbótartíma áður en Marcelo Brozovic gulltryggði sigurinn tveimur mínútum síðar eftir stoðsendingu frá Cristiano Ronaldo.
Al-Nassr er því á leið í Meistaradeild Asíu á kostnað Shabab Al-Ahli Dubai sem situr eftir með sárt ennið.