Íslenski boltinn

„Gerum til­­kall í að vera eitt af sterkustu liðum sögunnar“

Aron Guðmundsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins
Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins Vísir/Hulda Margrét

Arnar Gunn­laugs­son, þjálfari Víkings Reykja­víkur segir sitt lið gera til­kall til þess að vera metið sem eitt af bestu liðum Ís­lands­sögunnar. Víkingar eru búnir að stinga af á toppi Bestu deildarinnar og settu í gær nýtt stiga­met í efstu deild karla.

„Við töluðum um það í byrjun ágúst að þessi mánuður gæti orðið gjöfull fyrir okkur, við ætluðum okkur að komast í úr­slit bikar­keppninnar og með því að klára okkar deildar­leiki vissum við að staðan yrði mjög góð áður en úr­slita­keppnin byrjaði,“ sagði Arnar í við­tali á Stöð 2 Sport eftir 4-0 sigur Víkings Reykja­víkur á Val í toppslag Bestu deildarinnar.

Sigur Víkinga kemur þeim í ellefu stiga for­ystu á toppi Bestu deildarinnar og þá er liðið búið að bæta stiga­metið í efstu deild, situr á toppnum með 53 stig og getur enn bætt í því tvær um­ferðir eru eftir af hinni hefð­bundnu deildar­keppni.

Þor­kell Máni Péturs­son, sér­fræðingur Stöðvar 2 Sport í leiknum sagði við Arnar í beinni út­sendingu í gær að honum fyndist að Víkingar ættu að biðja þjóðina af­sökunar á því að gera mótið svona ó­spennandi.

„Við þurfum að halda fókus og eigum Blikana næst og svo fram en frammi­staða okkar í dag var frá­bær,“ svaraði Arnar. „Það er hægt að tala um flott mörk og allt það en varnar­leikur okkar var geggjaður.“

„Ekki í mínum villtustu draumum“

Barst þá talið að árinu 2018 og rifjaði Þor­kell Máni upp reynslu sína af Víkingum þá.

Það er brjáluð stemning í stúkunni, bikar­úr­slita­leikur í fjórða skiptið í röð. Árið 2018 ferð þú í undir­búnings­tíma­bil með Víkingum sem var bara eitt­hvað djók. Þið voruð að tapa 7-0 þar sem liðið var leitt til slátrunar. Hugsaðirðu á ein­hverjum tíma­punkti að fimm árum liðnum verð ég með lang­besta liðið á Ís­landi, búinn að slá stiga­metið og á leiðinni í bikar­úr­slit í fjórða skipti í röð?

„Ekki í mínum villtustu draumum. Maður er bara auð­mjúkur að fá að taka þátt í þessu. Frá 2018/2019 gerðist bara eitt­hvað í Víkinni. Þetta eru ekki bara þjálfarar og leik­menn, fé­lagið í heild sinni kemur saman. Það er búið að virkja alla.

Allt í einu eru allir Víkingar orðnir stoltir af fé­laginu sínu og þetta hefur verið frá­bær tími. Það er ó­trú­legt til þess að hugsa að við eigum séns á að vinna fimm titla á þremur árum, sex titla af níu mögu­legum síðustu fimm ár. Þetta er bara ó­trú­legt.

Vísir/Hulda Margrét

Eitt af fimm bestu liðum sögunnar

Borist hefur í tal að nú­verandi lið Víkings Reykja­víkur sé að stimpla sig inn sem eitt af bestu liðum sögunnar, hvernig metur Arnar þá stöðu?

„Við erum kannski eitt af fjórum, fimm bestu liðum sögunnar. Það eru FH lið, KR lið og Skaga­lið hjá Guð­jóni Þórðar sem byrja þetta allt.

Þá er einn þjálfari sem fær aldrei neitt kredit upp á Skaga og það er Hörður Helga­son, hann gerði Skagann að tvö­földum meisturum tvö ár í röð. Það er af­rek sem hefur aldrei verið leikið eftir.

Það er fullt af svona flottum sögum þarna úti en af því að við erum í núinu þá man fólk bara fyrst og fremst eftir því sem er að gerast í dag. Við gerum til­kall í að vera eitt af sterkustu liðum sögunnar.“

Víkingar hafa verið magnaðir í árVísir/Anton Brink

Víkingar með ellefu stiga for­ystu á toppi Bestu deildarinnar. Hvernig ætlar Arnar að halda leik­mönnum á tánum?

„Það er ekkert mál. Það er svo mikið hungur í þessum strákum, þeir vilja vera partur af þessari vel­gengni og það er hvergi slakað á. Mantran hjá okkur er bara sú að það sem var nógu gott í gær er bara ekki nægi­lega gott í dag og þannig á þetta að vera.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×