Keflavíkurliðið er með ellefu stig eftir nítján leiki og sex stigum frá öruggu sæti. Liðið gerði áttunda jafnteflið sitt í gær og hefur ekki unnið leik frá því liðið vann sigur í fyrstu umferðinni 10. apríl.
Keflavík komst yfir á móti Val í gær þegar komið var fram á fimmtu mínútu í uppbótatíma en Valsmenn náðu að jafna áður en leikurinn var flautaður af.
Þrátt fyrir að vera langneðstir í deildinni þá hafa Keflvíkingar verið að gera betri hluti á móti efstu liðunum en flest önnur félög.
Þetta var fjórði leikurinn sem Keflavík tekur stig á móti Víkingi, Val eða Breiðabliki. Keflavík hefur spilað fimm leiki samtals á móti toppliðunum.
Keflavík tapaði fyrsta leiknum á móti Víkingi en hefur síðan fengið stig út úr fjórum leikjum í röð á móti efstu þremur liðum deildarinnar.
Í tveimur síðustu, á móti liðinu í fyrsta (Víkingur) og öðru (Val) sæti þá hafa toppliðin sloppið með eitt stig eftir að hafa jafnað metin í uppbótatíma.
Toppliðin Víkingur, Valur og Breiðablik hafa tapað stigum í samtals átján leikjum í sumar (10 jafntefli og 8 töp) en 22 prósent þeirra hafa verið á móti botnliðinu.
Það gerir þá staðreynd enn skrýtnari að Keflvíkingar skulu sitja langneðstir á botni Bestu deildarinnar.
- Leikir Keflavíkurliðsins á móti þremur efstu liðunum í Bestu deildinni í sumar:
- 4. maí: 1-4 tap fyrir Víkingi
- 21. maí: 0-0 jafntefli við Val
- 29. maí: 0-0 jafntefli við Breiðablik
- 8. júlí: 3-3 jafntefli við Víking (Víkingur jafnaði í uppbótatíma)
- 13. ágúst: 1-1 jafntefli við Val (Valur jafnaði í uppbótatíma)