Körfubolti

Sterk byrjun dugði skammt gegn Úkraínu

Siggeir Ævarsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason var stigahæstur Íslendinga í dag
Tryggvi Snær Hlinason var stigahæstur Íslendinga í dag VÍSIR/VILHELM

Ísland beið lægri hlut fyrir Úkraínu í forkeppni Ólympíuleikanna í dag en leikið er í Istanbúl í Tyrklandi. Ísland byrjaði leikinn af krafti og leiddi 18-17 eftir fyrsta leikhluta en náðu ekki að fylgja góðri byrjun eftir.

Það má segja að Ísland hafi hitt á átta góðar mínútur í upphafi leiks en síðan ekki söguna meir. Úkraínumenn snéru leiknum við strax í 2. leikhluta og leiddu í hálfleik með níu stigum. Munurinn fór mest í 18 stig en lokatölur urðu 69-82 og Úkraínumenn búnir að vinna báða sína leiki í riðlinum.

Tryggvi Snær Hlinason var stigahæstur í liði Íslands í dag, skoraði 18 stig og bætti við níu fráköstum. Elvar Friðriksson kom næstur með 13 og þeir Ægir Þór Steinarsson og Kristinn Pálsson skoruðu báðir tíu.

Ísland á því ekki lengur möguleika á að tryggja sér farseðil á Ólympíuleikana sama hvernig leikurinn gegn Búlgaríu fer á þriðjudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×